Anna EA landar gráðlúðu til vinnslu fyrir austan

Deila:

Í sumar hefur grálúða og karfi fyrir Asíumarkað verið unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Fyrst og fremst hefur verið byggt á vinnslu grálúðunnar. Karfinn hefur verið heilfrystur en grálúðan er hausskorin, hreinsuð og síðan fryst.

Þessi vinnsla hófst í aprílmánuði sl. og er fyrst og fremst hugsuð til að fylla upp í þá eyðu sem myndast frá því að loðnuvertíð lýkur og þar til makrílvertíð hefst, en margir starfsmenn fiskiðjuversins taka sér frí frá störfum þegar ekki er verið að vinna uppsjávartegundir.

Nú, þegar makríllinn hefur látið bíða eftir sér, kemur sér vel að taka grálúðuna til vinnslu og landaði Anna EA um 60 tonnum sl. föstudag og var aftur væntanleg í gær með svipaðan afla. Anna hefur veitt grálúðuna í net fyrir norðan og norðaustan land í sumar og hefur afli hennar verið unnin í Neskaupstað.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að grálúðuvinnslan hafi gengið vel. „Þessi vinnsla hefur verið kærkomin fyrir okkur og afköstin eru um 60 tonn á dag. Lúðan kemur sporðskorin til okkar, en hún er blóðguð með því að sporðskera hana.  Ég held að Anna eigi eftir einn túr þegar löndun verður lokið í dag,“ segir Jón Gunnar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósmynd Smári Geirsson.

Deila: