Fyrsti skuttogarinn

Deila:

Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. birtir félagið pistla um sögu fyrirtækisins á heimasíðu sinni af og til út árið. Hér er fjallað um fyrsta skuttogara Síldarvinnslunnar, Barða NK 120, og spurninguna um það hvort hann hafi verið fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga.

Stundum þrefa menn um eitthvað sem skiptir litlu máli. Oft hefur til dæmis verið þráttað um það hver fyrsti íslenski skuttogarinn hafi verið. Norðfirðingar hafa haldið því fram að það hafi verið Síldarvinnslutogarinn Barði sem kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember 1970 og í kjölfar hans kom systurskipið Hólmatindur til Eskifjarðar. Aðrir hafa bent á að Siglufjarðarskipin Siglfirðingur og Dagný hafi tekið trollið inn að aftan og því hljóti þau að vera á undan Barða í skuttogararöðinni. Árið 1979 birtust fróðlegar greinar í Ægi um þróun í gerð og búnaði fiskiskipa og var þar meðal annars fjallað um skuttogara og helstu einkenni þeirra. Greinarnar byggðu á erindi sem Auðunn Ágústsson og Emil Ragnarsson fluttu á ráðstefnu sem Verkfræðingafélag Íslands hélt í marsmánuði 1979. Í umræddum greinum er meðal annars skilgreint með skýrum hætti hvað skuttogari er og er þá gerður samanburður á síðutogara og skuttogara. Skilgreiningin er svofelld:

Þegar síðutogari og skuttogari eru bornir saman eru æðimargir þættir í hönnun og fyrirkomulagi frábrugðnir þótt veiðarfærið sjálft sé í grundvallaratriðum það sama. Meginmunurinn er tvö heil þilför milli stafna á skuttogara, gafllaga skutur með skutrennu upp á efra þilfar, yfirbygging framskips, íbúðir almennt framskips og togþilfar á afturþilfari…

Í tækjabúnaði verða meginbreytingar í veiðibúnaði og búnaði við meðhöndlun á aflanum. Vindueiningum fjölgar, þar sem við bætast allar þær hjálparvindur og hjálpartromlur sem ekki voru fyrir hendi á síðutogurum, en almennt var aðeins um koppa á togvindu að ræða. Togvindum og ýmsum hjálparvindum er nú fjarstýrt frá brú, en á síðutogurunum var togvindunni stjórnað við sjálfa vinduna. Í sambandi við meðhöndlun aflans, sem nú fer fram undir lokuðu þilfari, kemur aukin hagræðing og nýr búnaður …

Niðurstaða greinarhöfundanna er skýr: Fyrsti skuttogari Íslendinga var Barði frá Neskaupstað. Þeir fjalla einnig um siglfirsku skipin sem áður voru nefnd. Þeir orða niðurstöðu sína þannig:

Fyrsti skuttogari Íslendinga var Barði NK 120, keyptur frá Frakklandi í desember 1970, en byggður þar árið 1966. Áður, eða í ágúst 1970, var keypt frá Þýskalandi til landsins togskip af hollenskri gerð, sem hlaut nafnið Dagný SI 70. Það skip var ekki með heilt efra þilfar aftur að skut og án rennu en síðar var því breytt, byggð skutrenna og aftasta hluta neðra þilfars lokað. Rétt er þó að nefna hér að árið 1964 var byggt í Noregi tog- og síldveiðiskip, Siglfirðingur SI 150, eins þilfars afturbyggt skip með skutrennu sem er því í reynd fyrsta íslenska skipið með skutrennu en fellur ekki inn í skilgreiningu þá sem hér er lögð til grundvallar fyrir skuttogara.

Skilgreining sú á skuttogara sem greinarhöfundarnir byggja á er almennt viðurkennd og ætti því að vera óþarfi að þrefa frekar um það hver var fyrsti skuttogari landsmanna. Hitt er svo annað mál að tilkoma Barða var undanfari skjótra og viðamikilla breytinga; um áramótin 1978-1979 áttu Íslendingar orðið hvorki fleiri né færri en 79 skuttogara og sjávarútvegur landsmanna hafði tekið miklum stakkaskiptum á tæpum áratug.

Á myndinni er Barði NK, fyrsti skuttogari Íslendinga að toga í Grindavíkurdýpi árið 1977. Ljósm. Kristinn Benediktsson

 

 

Deila: