Meiru af þorski landað í Færeyjum
Fjórðungsaukning hefur orðið á löndunum af þorski í Færeyjum á fyrstu átta mánuðum ársins. Aflinn þetta tímabil í ár er 10.892 tonn, en á sama tímabili í fyrra var þorskaflinn 8.697 tonn. Munurinn er 2.195 tonn eða 25,2%.
Í þessum tölum er miðað við afla af heimamiðum, afla við Ísland og á Flæmska hattinum. Þorskafli frystitogara í Barentshafi er fyrir utan þessar tölu. Heildaraflinn þetta tímabil fyrir utan uppsjávarfisk og afla frystitogara er 54.690 tonn, sem er aukning um 1.130 tonn eð 2,1%,
Botnfiskaflinn er nú 37.117 tonn en var í fyrra 35.311 tonn og er munurinn 5,1% Ýsuafli er nú 3.330 tonn sem er vöxtur um 20,8%, en samdráttur er í löndunum af ufsa. Aflinn nú er 16.520 tonn, sem er 2,1% minna en í fyrra.
Af öðrum mikilvægum tegundum má nefna að afli af grálúðu er nú 2.502 tonn, en var á sama tíma í fyrra. 3.286 tonn.