Þeir sömu á toppnum
Litlar breytingar eru á hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum yfir kvótahæstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins frá því sams konar upplýsingar voru birtar í september sl. í kjölfar úthlutunar aflamarks við upphaf fiskveiðiárs. Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er með um 10,9% af hlutdeildunum en var í september með 10,4%. Samherji er með 6,3%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins því yfir 17,2% af hlutdeildunum í kvótakerfinu. Í 3. til 5. sæti eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, Þorbjörn í Grindavík og FISK-Seafood Sauðárkróki.
Þegar skoðuð er krókaaflahlutdeild útgerða þá er röðin á stærstu útgerðunum hin sama og sl. haust. Grunnur í Hafnarfirði er stærstur með 4,6%, Jakob Valgeir í Bolungarvík og síðan Einhamar Seafood með um 4,1% hvor útgerð.
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.
Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.
Eina fyrirtækið sem fer yfir hámarkshandhöfn á hlutdeildum er Salting ehf sem ræður yfir 5,15% krókaaflahlutdeilda í ýsu Fyrirtækið hefur ákveðinn frest til að leiðrétta þá stöðu.
Aflahlutdeild 1. mars 2018 – 100 stærstu
Krókaaflahlutdeild 1. mars 2018 – 50 stærstu
Hér má sjá til samanburðar töflur frá september 2017 yfir þær útgerðir sem þá réðu yfir mestum aflaheimildum:
Aflahlutdeild 1. september 2017 – 100 stærstu
Krókaaflahlutdeild 1. september 2017 – 50 stærstu