Fjórði hver þorskur frá Íslandi

Deila:

„Gangi spár eftir má reikna með því að fjórði hver þorskur úr Atlantshafinu sem seldur verður í ár komi frá Íslandi. Hlutfallið var fimmti hver árið 2017, sé miðað við að allir þorskar í sjónum séu jafn stórir. Það eru vissulega góð tíðindi að hlutur Íslands skuli vera að stækka og segir sína sögu um það, hvernig tekist hefur til við að rétta af þorskstofninn á Íslandsmiðum.“

Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Pistillinn er svo hljóðandi: „Veiðar á villtum bolfiski (þorski, ýsu, karfa og ufsa) hafa dregist saman í Norður-Atlantshafi á undanförnum árum. Reiknað er með að aflinn minnki lítillega í Norður-Atlantshafinu í ár og fari rétt niður fyrir 2 milljónir tonna. Þegar litið er til einstakra tegunda munu veiðar á Atlantshafsþorski dragast mest saman, eða um 4%, en þess má geta að hlutur þorsksins er um 60% af heildaraflanum. Eðlilegt er að velta upp þeirri spurningu, hverjir eru að veiða meira og hverjir minna? Af löndum við Norður-Atlantshafið er aðeins búist við því að Íslendingar auki sínar veiðar í ár. Því stefnir í að framboð af bolfiski frá Íslandi verði það mesta síðan árið 1990. Útlit er fyrir að Ísland sé í fyrsta sinn, síðan árið 2009, með meiri bolfiskafla en Rússland. Ísland situr þá í öðru sæti, á eftir Noregi, á lista yfir stærstu þjóðirnar í veiðum á bolfiski úr Norður-Atlantshafi.

Gangi spár eftir má reikna með því að fjórði hver þorskur úr Atlantshafinu sem seldur verður í ár komi frá Íslandi. Hlutfallið var fimmti hver árið 2017, sé miðað við að allir þorskar í sjónum séu jafn stórir. Það eru vissulega góð tíðindi að hlutur Íslands skuli vera að stækka og segir sína sögu um það, hvernig tekist hefur til við að rétta af þorskstofninn á Íslandsmiðum.

Með hóflegu veiðiálagi undanfarin ár hafa þorskárgangar, hver af öðrum, lifað lengur og tekið út meiri vöxt og þannig gefið af sér meiri afla og lagt meira til hrygningarstofnsins en ella. Grundvöllur þessarar þróunar er það veiðistjórnunarkerfi sem viðhaft er á Íslandi og nefnist aflamarkskerfi, eða kvótakerfi í daglegu tali. Það hvílir á markvissri stjórnun á fiskveiðum með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla, aflareglu, ásamt eftirfylgni og eftirliti. Fyrir utan þorsk eru í gildi aflaregla fyrir ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, keilu, sumargotsíld og loðnu. Aflareglu er ætlað að tryggja að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær. Íslendingar eru leiðandi þjóð í þróun á langtíma aflareglu í fiskveiðum og mikilvægt er að nýting á fiskistofnum á Íslandsmiðum byggist ávallt á grunni þeirra. Þannig kerfi tryggir framtíðarhagsmuni.“

 

Deila: