„Við vorum flæmdir að heiman“
Einar Sigurðsson er einn fimm strandveiðimanna sem flúði Raufarhöfn í vor, vegna fyrirkomulags strandveiða. Hann fékk pláss í höfn á Grundarfirði og mun hafast við í hjólhýsi í sumar.
Sjómenn á fimm bátum frá Raufarhöfn, sem reka fimm litlar útgerðir, færðu sig um set fyrir yfirstandandi vertíð á strandveiðum. Þeir flúðu brothætta heimabyggð og héldu vestur bóginn þar sem von er á betri veiði fyrri hluta sumars. Strandveiðar voru í fyrra stöðvaðar upp úr miðjum júlí, þegar fiskur var nýlega komin í færi við strandveiðisjómenn á austanverðu landinu. Frumvarp um svæðaskiptingu aflaheimilda hafði ekki verið samþykkt þegar strandveiðar hófust, en ráðherra gerði í byrjun maí fyrirvara um að reglugerð um strandveiðar gæti tekið breytingum, ef frumvarpið færi í gegn um þingið.
Einn þessara fimm er útgerðarmaðurinn Einar Sigurðsson. Hann fékk, ásamt syni sínum sem rekur aðra útgerð og einum til, pláss í höfn á Grundarfirði. „Við fórum þrír vestur vegna þess að við vildum ná að veiða eitthvað áður en kerfinu yrði lokað. Við mátum það svo að potturinn yrði búinn í byrjun júlí. Þá er besti tíminn fram undan við Raufarhöfn og á norðausturhluta landsins,“ útskýrir Einar þegar hann er spurður hvað hafi ráðið ákvörðun þeirra feðga. Eins og áður segir fóru þrír til Grundarfjarðar. Einn til viðbótar fór til Skagastrandar en sá fimmti til Djúpavogs, þar sem von er á góðri ufsaveiði samhliða þorskveiðinni.
Ekki léttvæg ákvörðun
Einar segir aðspurður að frumvarp ráðherra og yfirlýsing um að reglugerð um strandveiðar gæti tekið breytingum hafi gert þessa ákvörðun mjög flókna. Þeir feðgar hafi beðið með að taka ákvörðun þar til strandveiðar voru hafnar. „Við vissum ekki hvort við ættum að hafa trú á þessu yrði breytt á réttlátan hátt eða ekki. Við völdum, í ljósi reynslu okkar, að trúa því ekki að réttlæti næði fram að ganga,“ segir Einar og heldur áfram: „Raddir þeirra sem passa upp á að frumvarpið náði ekki fram að ganga hafa verið of sterkar. Þar á meðal er Landssamband smábátaeigenda sem á að hugsa um hag okkar smábátasjómanna,“ segir Einar ákveðinn.
Hann vísar til þess að LS hefur mótmælt frumvarpi ráðherra um svæðaskiptingu, sem myndi tryggja svæðum B, C og D sanngjarnan skerf af þeim aflaheimildum sem úthlutað hefur verið til strandveiða. Strandveiðisjómenn á A-svæði hafa borið áberandi mest úr býtum undanfarin ár, á kostnað hinna svæðanna. LS hefur barist fyrir 48 sóknardögum fyrir alla, eins og lagt var af stað með þegar svæðaskipting var afnumin árið 2018. Í fyrra var allur ágúst og þriðjungur júlímánaðar skorinn aftan af tímabilinu.
„Ég hefð viljað sjá LS sýna viðleitni til að laga kerfið, svo það væri sanngjarnt. Þess í stað höfum við á Norðausturlandi fengið ákúrur fyrir að standa ekki með 48-daga kerfinu. Það er ekki rétt. Við höfum talað fyrir 48 sóknardögum en þangað til það næst þarf að laga kerfið.“ Hann segir skjóta skökku við að LS, sem hafi krafið alla um samstöðu með baráttunni fyrir 48 dögum, hafi sjálft ljáð máls á því að fækka dögum, til að miðla málum. Hann spyr hvaðan sú ákvörðun sé komin.
Gestrisnir Grundfirðingar
Helmingur báta á strandveiðum gerir nú út á A-svæði. Hafnir á Vesturlandi eru víða fullar af bátum og erfitt að fá pláss. Einar segir að aðstæður í Grundarfirði séu til fyrirmyndar á allan hátt, þó erfitt hafi reynst að fá leigt húsnæði. Engan skugga hafi borið á gestrisni heimamanna. Hann bendir hins vegar á þetta fyrirkomulag, sem ýti öllum strandveiðimönnum vestur, sé ekki hentugt fyrir A-svæði. „Það er mjög óheppilegt ef öll smábátaútgerðin ætlar að gera út á Breiðafirði, eða við Vestfirði,“ segir Einar og bætir við að þéttleiki báta á miðunum sé sums staðar of mikill. Það gagnist engum.
Tvö þúsund lítrar af olíu
Þegar blaðamaður ræddi við Einar hann búinn að fara í þrjá róðra frá Grundarfirði. Hann náði skammtinum alla þá daga, enda töluverður fiskur á grunnslóð á þessum tíma, ólíkt því sem gerist á Raufarhöfn í maí. Hann segir að það sé eins gott að veiðin sé góð; það sé ekki ókeypis að flytja báta á milli landshorna. Bátarnir þrír sem fóru til Grundarfjarðar hafi þannig brennt um 2.000 lítrum af olíu.
„Við eigum svo eftir að koma okkur til Reykjavíkur fljúga austur og sækja bílana okkar. Það sama tekur við þegar vertíðin er yfirstaðan,“ segir Einar. Hann segir erfitt að fá húsnæði á Grundarfirði og því hafi þeir feðgar brugðið á það ráð að útvega sér hjólhýsi, sem þeir þurfi að draga vestur.
Þeir félagar höfðu reynt nokkrar hafnir áður en þeir komust að á Grundarfirði. „Kerfið beinir öllum á sama stað. Ég veit um fullt af mönnum sem væru að gera út heima frá sér ef menn fengju að róa á þeim tíma sem hentar á þeirra svæði.“
Fimm fyrirtæki úr 200 manna byggðarlagi
Einar bendir á að fimm litlar útgerðir skipti byggðarlag eins og Raufarhöfn miklu máli. Í fyrra hafi 17 bátar verið gerðir út til strandveiða frá Raufarhöfn en nú sé ljóst að þeim hafi fækkað um a.m.k. fimm. Hann segir að brotthvarf fimm lítilla útgerða hafi áhrif á rekstrargrundvöll verslunar í byggðarlaginu, félagsleg áhrif og í raun á alla innviði í samfélaginu. Þetta hafi mikil áhrif á 200 manna samfélag. „Þetta er bara blóðtaka fyrir þorpið okkar,“ segir hann að lokum.
Greinin birtist fyrst í tölublaði Sóknarfæris.