Landaði 900 tonnum af frystum makríl

Deila:

Stóri grænlenski rækju- og uppsjávarveiðitogarinn Svend C landaði 900 tonnum af frystum makríl í Reykjavík í síðust viku. Aflann fengu þeir í lögsögu Grænlands á 10 dögum.
Skipstjórinn Anfinn Jacobsen segir í samtali á færeyska sjávarfréttavefnum fiskur.fo, að mikið hafi verið af makríl, það mikið að vinnslan var keyrð á fullu allan sólarhringinn alla dagana. Afköstin eru mikil, eða allt að 150 tonn af hausuðum og slógdregnum makríl á sólahring. Vinnslan hefur reyndar ekki náð því marki nú af sögn Anfinns.

„Þetta er stórt og gott skip, sem var byggt í Tyrklandi 2016. Það er bæði með kvóta í rækju og makríl og útbúið til veiða og vinnslu á báðum teundunum. Þetta er því skemmtilegt spik að vera með. Um borð eru þrír RSW kælitankar, sem hver um sig tekur 45 tonn. Frystilestin er á tveimur hæðum og rúmar 900 tonn af afurðum á brettum, svo skipið er mjög vel útbúið,“ segir Anfinn.

Þegar þeir hafa fiskað upp kvótann sinn við Grænland liggur leiðin í Síldarsmuguna á makrílveiðar. Þar. Þegar þeim veiðum lýkur heldur skipið á ný til Grænlands og þá á rækjuveiðar.

Það er útgerðarfélagið Sikuaq Trawl A/S sem gerir Svend C út. Hann er 83 metra langur og 17 metra breiður. Aðalvélin er rétt tæp 7.000 kílówött að stærð. Í áhöfn eru Grænlendingar og Færeyingar. Skipið er skrásett í Nuuk.

 

Deila: