Mikið flutt af makríl milli skipa

Deila:

26.000 tonna makrílkvóti hefur nú verið fluttur yfir á skip með aflareynslu af skipum án vinnslu, vinnsluskipum og tilboðskvóta. Skip án vinnslu hafa enn engum afla landað og aðeins fjögur vinnsluskip hafa landað afla.

Enn sem komið er, eru það aðeins 21 skip sem hafa landað afla úr þessum þremur skipaflokkum; 17 aflareynsluskip og vinnsluskipin fjögur. Samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda hafa smábátar nú landað ríflega 4.000 tonnum.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu í gærkvöldi er heildaraflinn í makríl orðinn um 90.000 tonn og því 86.000 tonn óveidd af kvótanum. Gert er ráð fyrir að veiðar stóru skipanna glæðist á næstunni, þegar makríllinn fer að ganga fer að ganga út á dýpra vatn.

Aflareynsluskipin eru nú komin með 79.000 tonn og eiga eftir um 71.000 tonn af kvóta sínum. Vinnsluskipin eru komin með tæp 6.000 tonn og eiga þá eftir óveidd um 9.900 tonn eftir millifærslur. Frá þeim hafa verið flutt ríflega 12.000 tonn yfir á aflareynsluskipin. Af skipum á vinnslu hafa verið flutt um 7.300 tonn yfir á aflareynsluskipin. Þá hafa 7.600 tonn af tilboðskvóta farið yfir á þau.

Aflahæstu skipin nú eru HB Grandaskipin Venus NS með 7.700 tonn og Víkingur AK með 7.000 tonn.

Brimnes RE er aflahæsta vinnsluskipið með 2.860 tonn og næst kemur Kristina EA með 1.740 tonn.

Af smábátunum er Fjóla GK efst með 258 tonn, næst er Andey GK með 231 og loks Brynja SH með 211 tonn.

Deila: