Björgunaræfing á norðurslóðum

Deila:

Arctic Guardian, fyrsta sameiginlega leitar- og björgunaræfing samtaka strandgæslustofnana norðurslóðaríkja (e. Arctic Coast Guard Forum,) hófst. Markmið æfingarinnar er að þróa fjölþjóðlega samvinnu á þessu sviði og gera hana nánari en jafnframt sýna fram á getu aðildarríkjanna til að ráðast í sameiginlegar leitar- og björgunaraðgerðir á norðurslóðum.

Samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna (ACGF) voru stofnuð árið 2015 til þess að styrkja samstarf og samhæfingu ríkjanna átta sem liggja að hafsvæði norðurslóða (Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð). ACGF stendur fyrir sinni fyrstu eiginlegu æfingu í þessari viku og verður hún haldin á hafsvæðinu vestur af Íslandi. Þessi fyrsta æfing sem haldin er undir merkjum ACGF er mikilvægt skref í átt að enn nánara samstarfi aðildarríkjanna.

Þýðing alþjóðasamvinnu fyrir öryggi sjófarenda

Ef slys eða óhöpp verða á hafsvæði norðurslóða geta margir dagar liðið áður en hjálp berst. Slík óhöpp geta haft áhrif á mörg ríki, svo ekki sé minnst á viðkvæm vistkerfi norðlægra breiddargráða. Samvinna skiptir því sköpum til að tryggja öryggi fólks og vernda umhverfið. Með því að deila verklagi og starfsaðferðum er hægt að stuðla að öruggari og skilvirkari leitar- og björgunaraðgerðum á norðurskautssvæðinu.

Arctic Guardian 2017 gerir alþjóðlega samvinnu enn nánari

Arctic Guardian er sameiginleg leitar- og björgunaræfing aðildarstofnananna þar sem verður látið reyna á samvinnu leitar- og björgunareininga þeirra. Auk þess æfa sjóbjörgunarmiðstöðvar (MRCC) aðildarríkjanna samskipti sín á milli. Aukin vitund um þýðingu leitar- og björgunarstarfs á norðurslóðum er eitt höfuðmarkmið þessarar æfingar.

Sviðsmynd Arctic Guardian 2017 – Skip í sjávarháska 

Farþegaskip á leið frá Grænlandi til Íslands er án sambands við umheiminn. Um borð eru tvö hundruð farþegar, auk fimmtíu manna áhafnar. Bæði skip og loftför frá nokkrum norðurslóðaríkjum taka þátt í leit að björgunarbátum og fólki í sjónum. Strandgæslustofnanir Danmerkur, Kanada, Noregs, Bandaríkjanna og Íslands leggja til skip til æfingarinnar en auk þess koma flugvélar og þyrlur frá bandarísku, dönsku, kanadísku og íslensku stofnunum. Áhafnir þessara skipa og loftfara koma til með að vinna náið saman í þessari sameiginlegu leitar- og björgunaræfingu. Finnland, Svíþjóð og Rússland taka þátt í æfingunni en leggja ekki til búnað.

Eitt helsta markmið Arctic Guardian 2017 er að auka getu til sameiginlegrar leitar og björgunar á norðurslóðum og auka samvinnu og samhæfingu björgunarmiðstöðva norðurslóðaríkjanna (RCC). Að æfingunni lokinni verður árangurinn metinn og frekari aðgerðir þróaðar fyrir næstu æfingar. Í framtíðinni er áformað að halda fleiri æfingar undir merkjum ACGF, bæði raunverulegar æfingar og svokallaðar skrifborðsæfingar.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, segir Arctic Guardian 2017 marka mikilvæg tímamót. „Það segir sína sögu um þýðingu þessara mála að samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum skuli efna til svo stórrar æfingar aðeins tveimur árum eftir stofnun þeirra. Ég hef áður sagt að ekkert ríki geti brugðist við sjávarháska farþegaskipa eða annarra stórra skipa á norðurslóðum upp á eigin spýtur og því skiptir miklu máli að samstarf þeirra sé náið og skilvirkt. Þessi æfing markar því þáttaskil í norðurslóðasamstarfinu. Það er auk þess mikil viðurkenning á störfum Landhelgisgæslu Íslands að æfingin skuli haldin hér við land og við erum bæði stolt og ánægð yfir því.”

 

Deila: