Kolmunna landað hjá Síldarvinslunni

Deila:

Kolmunnaveiðin vestur af Írlandi hefur gengið vel að undanförnu þegar veður hefur ekki hindrað veiðar. Síðustu daga hafa skip landað afla í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar, bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Hákon EA landaði um 1.600 tonnum í Neskaupstað sl. föstudag og Margrét EA tæplega 2.000 tonnum á sunnudag. Bjarni Ólafsson landaði síðan tæplega 1.700 tonnum á Seyðisfirði á mánudag samkvæmt frá á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Nú hafa verksmiðjur Síldarvinnslunnar tekið á móti tæplega 23.000 tonnum af kolmunna á árinu. Alls hefur 17.600 tonnum verið landað í Neskaupstað og 5.200 tonnum á Seyðisfirði. Síðan var von á rúmlega 5.000 tonnum til viðbótar í gær; Beitir NK var væntanlegur til Neskaupstaðar með rúmlega 3.000 tonn og Börkur NK til Seyðisfjarðar með tæplega 2.200 tonn.

Verskmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Gunnar Sverrisson á Seyðisfirði, segja að mjög gott sé að vinna kolmunnann sem berst að landi. Hráefnið sé eins og best verður á kosið. Það sé vel kælt um borð í skipunum og fiskurinn sé sæmilega feitur og vel á sig kominn.

 

Deila: