Björguðust af brennandi báti

Deila:

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning klukkan 17:51 í gær um eld um borð í fiskibátnum Æsi sem staddur var tíu sjómílur vestur af Flatey á Breiðafirði. Þrír voru um borð.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út sem og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, sem var í löggæsluverkefni þegar útkallið barst. Að auki var varðskipið Týr beðið um að halda á vettvang sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi.

Flugvélin var komin yfir bátinn klukkan 18:09 en þá voru mennirnir þrír komnir í flotgalla. Enginn reykur var þá sjáanlegur en hiti greinanlegur með hitamyndavél flugvélarinnar.

Fiskibáturinn Hafey, sem upphaflega var í níu sjómílna fjarlægð, kom fyrstur að að bátnum og voru skipverjarnir þrír óhultir. Áhöfnin á Hafey  tók Æsi í tog og dró hann til Brjánslækjar.

Björgunarskipinu Björgu frá Rifi var snúið við sem og varðskipinu Tý og þyrlunni Líf.

Björgunarbáturinn Guðfinna frá Stykkishólmi fylgdi bátunum inn til Brjánslækjar í öryggisskyni.

 

Deila: