Eignarréttur á fiskikörum er ekki virtur

Deila:

Ýmis sjávarútvegsfyrirtæki hafa látið framleiða fyrir sig sérmerkt fiskikör en þrátt fyrir merkinguna er eignarréttur á körunum oft ekki virtur. Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum er eitt þeirra fyrirtækja sem lengi hefur átt sérmerkt kör en haldist illa á þeim. Kör fyrirtækisins hurfu í verulegu magni og vitað er að þeir sem tóku þau létu oft slípa merki fyrirtækisins af þeim. Körin voru síðan notuð með ýmsum hætti, meðal annars undir alls konar rusl. Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Að því kom að Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri fékk nóg og var þá ákveðið að Bergur-Huginn léti Sæplast sérframleiða kör fyrir fyrirtækið. Nýju körin voru að sjálfsögðu með merki þess en þau voru einnig græn að lit, en ekkert annað fyrirtæki á kör í þessum lit. Þetta var gert til þess að körin væru auðþekkjanleg og það dygði ekki að slípa merkið af þeim eftir að þau höfðu verið tekin traustataki af einhverjum óvönduðum.

Að sögn Magnúsar dugði þessi ráðstöfun ekki. Kör fyrirtækisins eru tekin þrátt fyrir græna litinn og enn er haft fyrir því að slípa merkið af þeim. Magnús segir að þetta sé áhugavert umhugsunarefni.

„Í reynd er ótrúlegt hvernig menn umgangast fiskikör. Menn sem almennt virða eignarrétt annarra virða alls ekki eignarrétt á fiskikörum. Þeim þykir sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, og nota þau í eigin atvinnurekstri. Þetta er hreint út sagt ótrúlegt, vegna þess að kör eru ekki ódýr og það skiptir miklu máli fyrir eiganda þeirra að þau séu til staðar. Körin eru gerð til að geyma í þeim fisk og þess vegna skiptir miklu máli hvernig þau eru notuð og hvernig um þau er hugsað. Það þarf til dæmis að þrífa þau vel reglulega og þess vegna skiptir máli hvað í þau er sett,“ sagði Magnús.

Nú fyrir jólin vakti Bergur-Huginn athygli á þessu máli með auglýsingu um leið og það sendi frá sér jólakveðju. Fyrirsögn auglýsingarinnar var Virðum eignarréttinn og henni fylgdi einnig mynd af vörubifreið sem hlaðin var grænum fiskikörum fyrirtækisins.

 

Deila: