Þrálát kaldadrulla

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa fullfermi á Seyðisfirði í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði fyrst um samsetningu aflans.

„Þetta eru í kringum 109 tonn og meirihlutinn þorskur. Það eru samtals um 40 tonn af ufsa og karfa í aflanum. Það gekk þokkalega að veiða en við vorum á miðunum í fjóra sólarhringa eða svo. Það var veitt á nokkrum stöðum; á Lónsdýpinu, í Berufjarðarál, utan Fótar og síðan á Gerpistotu. Fiskurinn sem fékkst er fínasti vinnslufiskur. Veðrið var ekki sérlega gott. Það er búið að vera afar þreytandi veður alveg frá áramótum; þrálát kaldadrulla en ekki mikið um hörkubrælur“, segir Steinþór.

Gullver mun halda til veiða á ný strax að löndun lokinni.
Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Deila: