Áratugar langri deilu við það að ljúka

Deila:

Átökum Samherja og Seðlabankans sem hafa staðið yfir í nærri áratug var framhaldið í Landsrétti í morgun þar sem aðalmeðferð fór fram í skaðabótamáli Samherja og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins, gegn bankanum. Þorsteinn Már segir að ekki séu frekari málaferli framundan og telur komið að endapunkti. Lögmaður Samherja sagði Seðlabanka hafa haldið málinu áfram þrátt fyrir að vita betur. Lögmaður Seðlabanka sagði málið ekki jafn klippt og skorið og Samherjamenn vilji láta. Fjallað var um málið á ruv.is og sjónvarpinu í gær.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Seðlabankann af 290 milljóna skaðabótakröfu og tíu milljóna miskabótakröfu Samherja í október 2020. Á sama tíma var bankinn dæmdur til að greiða Þorsteini Má hálfa þriðju milljón króna í tengdu máli. Bæði málin sneru að rannsókn bankans á því hvort Samherji og Þorsteinn Már hefðu staðið við skilaskyldu á gjaldeyri eftir hrun og stjórnvaldssekt sem var lögð á þau. Stjórnvaldssektin var numin úr gildi með Hæstaréttardómi. Eftir það kröfðust Samherji og Þorsteinn Már bóta. 

Hvor um sig áfrýjaði eigin tapi

Samherji áfrýjaði sýknudómi Seðlabankans en hefur nú lækkað skaðabótakröfu sína úr 290 milljónum í 115 milljónir. Meðal þess sem hefur fallið út er 135 milljóna króna kostnaður vegna starfa Jóns Óttars Ólafssonar, afbrotafræðings og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns. Hann tók til starfa 2013 og vann meðal annar fyrir fyrirtækið í Namibíu. Seðlabankinn áfrýjaði dóminum um að hann skildi 

Garðar G. Gíslason, lögmaður Samherja, sagði að húsleit Seðlabankans hjá Samherja 2012 hefði verið sú stærsta í sögu landsins og í framhaldi af því hefði bankinn sent út tilkynningu um húsleitina til 600 aðila um allan heim. Eftir það hefði Samherji þurft að grípa til allra mögulegra ráða til að verja sig. Niðurstaðan hefði verið sú að kærur Seðlabankans féllu um sig sjálfar og stjórnvaldssektir voru ógiltar með hæstaréttardómi. Lögmaður Seðlabankans svaraði því til að tilkynningin væri í raun aðeins frétt á vef bankans og henni hefði ekki verið deilt með öðrum hætti en þeim að þeir sem voru í áskrift að fréttum bankans fengu hana eins og aðrar.

Alltof langt gengið

Seðlabankinn olli Samherja miklu tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti, sagði Garðar. Hann vísaði þar til húsleitarinnar og frétta af henni, sagði starfsmenn bankans hafa gengið alltof langt í að sækja málið gegn Samherja þrátt fyrir að hafa fengið ábendingar um að lagaheimild skorti og að starfsmaður bankans hefði upplýst fréttamann RÚV um húsleitina. Um það síðasta sagði Garðar: „Þetta er svo gróft brot að það er ekki hægt að eiga um það frekari orð.“

„Það var enginn fótur fyrir neinu, stefndi kunni einfaldlega ekki að reikna,” sagði Garðar um tildrögin að rannsókn Seðlabankans á því hvort Samherji hefði uppfyllt skilaskyldu. Hann sagði að komið hefði fram að Samherji hefði komið með meiri gjaldeyri til landsins en að honum hefði verið skylt.

Jóhannes Karl Sveinbjörnsson, lögmaður Seðlabankans, vísaði málflutningi Samherja á bug. Hann sagði að horfa yrði til þeirra aðstæðna sem voru uppi í íslensku samfélagi á árunum eftir hrun. Bankarnir hefðu hrunið og reynt hefði verið að verja krónuna með gjaldeyrishöftum, þá hefði Seðlabankinn þurft að rannsaka ábendingar um hvort að gjaldeyrir skilaði sér ekki eins og skylt væri. Jóhannes Karl sagði að beita hefði þurft róttækum aðgerðum í þessum efnum og ekki hefði verið hjá því komist að margir yrðu fyrir óþægindum þess vegna.

Skilaskylda fyrirtækja sem stjórnað er að heiman

Innlendir aðilar voru ekki aðeins fyrirtæki með heimilisfesti á Íslandi heldur líka þau sem var stjórnað frá Íslandi, sagði Jóhannes Karl. Hann hafnaði því að Seðlabankinn hefði farið í veiðiferð gagnvart Samherja eða staðið í einhverjum tilraunum eins og Garðar hefði haldið fram. Hann vísaði til rannsóknarskýrslu Seðlabankans til að metra hvort eitthvað hefði komið út úr rannsókninni. Samkvæmt henni hefði hlutfallslega lítill gjaldeyrir skilaði sér frá Katla Seafood á Kýpur og Axel Seafood. Þó mætti ætla af gögnum að fyrirtækjunum hefði verið stjórnað frá Íslandi og þá væru þau skilaskyld hér. Jóhannes sagðist þó ekkert fullyrða um brot enda aldrei fallið efnislegur dómur í málinu.

Jóhannes sagði að það sérstaka í málinu væru viðbrögð Samherja og þau réttlættu ekki skaðabótakröfu upp á meira en 300 milljónir eins og upphaflega hefði verið lagt upp með. Jóhannes Sveinn sagði að Samherji hefði kært dómara sem kváðu upp húsleitarheimildir og óbreytta starfsmenn Seðlabankans og sett þrýsting á stjórnvöld og fjölmiðla. Slíkt gæti ekki verið forsenda fyrir bótakröfu. Garðar, lögmaður Samherja, svaraði honum síðar að hann kannaðist ekki við neinn slíkan þrýsting á fjölmiðla og stjórnmálamenn.

„Í fyrsta lagi hafa komið fram ný gögn eftir að héraðsdómur féll,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, um ástæður þess að fyrirtækið áfrýjar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og hvers vegna bótakrafan er lægri en áður. „Í öðru eru bætur í íslensku dómskerfi yfirleitt mjög lágar þegar verið er að dæma mönnum bætur vegna þess að það er kannski búið að dæma þá eins og harðfisk árum saman. Það er aðalástæðan.“

Lögmenn Samherja og Seðlabankans deildu um bótakröfu fyrirtækisins fyrir dómi í dag. Lögmaður Seðlabankans sagði hana óskýra og ekki dregið fram hvers vegna ákveðin útgjöld kölluðu á bætur frá bankanum. Lögmaður Samherja sagði öll fylgiskjöl með í málsskjölum.

Sorgmæddur að þurfa að standa í þessu

Af upphaflegu bótakröfu stendur nú aðallega lögfræðikostnaður. Meðal þess sem fellur út úr kröfugerðinni eru 135 milljónir króna vegna starfa Jóns Óttars Ólafssonar, afbrotafræðings og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns. Aðspurður hvers vegna þessu væri sleppt úr bótakröfunni svaraði Þorsteinn: „Ég er ekki tilbúinn til að fara að þvæla um eitthvað slíkt við þig. Það sem eftir stendur er að maður er sorgmæddur að hafa þurft að standa í þessu í tíu ár.“ Eftir stæði að Seðlabankinn hefði farið ólöglega inn í Samherja. Hann andmælti orðum lögmanns Seðlabankans um að húsleitin hefði aðeins staðið í einn dag. „Það er voðalega auðvelt að segja fyrir dómi núna að þetta hafi bara tekið einn dagur, að þetta hafi bara verið einn dagur, eins og allt hafi gengið eðlilega eftir það. Þannig hefur það að sjálfsögðu ekki verið síðustu tíu ár. Ég vona að það sé kominn endapunktur á þetta núna og að sjálfsögðu treysti ég á það að okkur verði dæmdar bætur vegna þessa ólöglega athæfis Seðlabankans gegn fyrirtækinu og öllum starfsmönnum þess.“

Lögmaður Seðlabankans sagði í aðalmeðferðinni í dag að aldrei hefði fallið efnislegur dómur í málinu, hann lét að því liggja að skilaskyldu hefði ekki verið sinnt sem skyldi. Hefði niðurstaðan í þessum málum verið önnur hefði ráðherra undirritað refsiheimild? „Nei, hún hefði verið sú sama vegna þess að héraðssaksóknari og skattrannsóknastjóri fóru yfir þessi mál,“ segir Þorsteinn Már. „Þetta er hreinn uppspuni. Það sem er kannski erfitt er að hlusta á óheiðarlegan mann, það er að segja lögmann seðlabankans, fara út með svona hrein ósannindi eins og hann var að reyna að gera áðan. Það er eiginlega hálf ótrúlegt að maður skuli lenda hér í rétti og þurfa að hlusta á þetta ósannindaþvaður í lögmanni Seðlabankans. Ég hélt að sá tími væri liðinn.“ 

Deila: