Bjarni Sæmundsson í fjölbreyttum rannsóknum

Deila:

Um þessar mundir er rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í 12 daga rannsóknaleiðangri í Arnarfirði og í Ísafjarðardjúpi. Um borð er unnið að mörgum og fjölbreyttum rannsóknaverkefnum og er gert ráð fyrir að teknar verði um 500 stöðvar með rækjuvörpu, sjótaka, botngreip, botnkjarnataka eða neðansjávarmyndavél. Eftirfarandi verkefni eru í gangi:

Stofnmæling rækju
Frá árinu 1988 hefur verið farið árlega í leiðangra til að meta stofnstærð rækju. Niðurstöður úr mælingunum eru notaðar til að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar á innfjarðarækju. Ýmsum öðrum upplýsingum er safnað, meðal annars um útbreiðslu, magn og lengd allra fisktegunda í báðum fjörðunum og einnig er afrán þorsks, ýsu og lýsu kannað. Þannig hafa niðurstöður úr þessum mælingum meðal annars sýnt að tegundasamsetning og þéttleiki fiska og hryggleysingja breyttist upp úr síðustu aldamótum þegar magn þorsks og ýsu jókst en á sama tíma minnkaði magn rækju, flatfiska og ýmissa smáfiska.

Umhverfisáhrif sjókvíaeldis
Álag á grunnsævi fer vaxandi vegna ýmissa mannlegra athafna, svo sem fiskeldis. Til að meta áhrif fiskeldis á lífríki botnsins er upplýsingum nú safnað í botngreipar og með myndavélum annað árið í röð. Með slíkri árlegri vöktun fást upplýsingar um þéttleika og samsetningu botndýra á fjarsvæðum eldissvæða og hvernig það getur hugsanlega breyst. Að auki eru botnkjarnar teknir og súrefni, brennisteinsmagn og sýrustig er mælt úr setinu til að meta ástand þess. Verkefninu er ætlað að vakta ástand á fjarsvæðum eldis og fjarðakerfum í heild en eldisfyrirtæki standa sjálf að lögbundinni vöktun við eldissvæðin. Þetta verkefni er styrkt af Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Umhverfisrannsóknir
Árið 2001 hófst ítarleg kortlagning hitafars og seltu í þessum tveim fjörðum. Þá voru settar út sérstakar stöðvar þar sem árlega hefur verið safnað upplýsingum um hitastig og seltu sjávar. Á undanförnum árum hafa einnig verið gerðar mælingar á styrk súrefnis og næringarefna.

Rannsóknir á ungþorski
Á síðustu árum hefur verið kallað eftir ítarlegri upplýsingum varðandi nýliðun þorsks við Ísland. Í leiðangrinum er ungþorskur merktur til að sjá hversu lengi hann dvelst í fjörðunum. Að auki er lögð áhersla á mælingar á þorskseiðum með það að markmiði að skoða ástand og aldur seiða í mismunandi fjörðum við landið.

 

Deila: