Óskar greinargerðar frá bankaráði SÍ um Samherjamálið

Deila:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir því að bankaráð Seðlabanka Íslands riti sér greinargerð vegna dóms Hæstaréttar í máli Seðlabankans gegn Samherja. Katrín ritaði Gylfa Magnússyni, formanni bankaráðsins, bréf þessa efnis í gær samkvæmt frétt á ruv.is.

Á fimmtudag í síðustu viku kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Þar er staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji skuli greiða ríkissjóði 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota á reglum um gjaldeyrismál.

Katrín óskar eftir greinargerð bankaráðs um mál Samherja frá þeim tíma sem rannsókn hófst á meintum brotum. Katrín óskar sérstaklega eftir upplýsingum um hvað hafi legið að baki ákvörðun bankans um að taka málið upp að nýju, en Samherja var tilkynnt um endurupptöku 30. mars 2016.

„Þá óska ég einnig eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabanki Íslands hyggist bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða,“ segir Katrín sem óskar þess jafnframt að greinargerðin berist ráðuneyti sínu í síðasta lagi föstudaginn 7. desember.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur brugðist mjög harkalega við dómi Hæstaréttar og kallað eftir afsögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Katrín hefur aftur á móti sagt að málið hafi ekki áhrif á stöðu Más.

 

Deila: