Kampi ehf. kaupir karakerfi frá Skaginn 3X

Deila:

Rækjuverksmiðjan Kampi ehf. á Ísafirði skrifaði nýverið undir samning um kaup á karakerfi frá Skaginn 3X. Ávinningur kerfisins eru miklir þar sem það eykur afköst og sjálfvirkni verksmiðjunnar og notkun lyftara minnkar því til muna eins sem  meðhöndlun á hráefni og körum verður betri.

Rækjuverksmiðjum hérlendis hefur fækkað á undanförnum árum og eru nú aðeins fjórar rækjuverksmiðjur hérlendis í fullum rekstri. Það er mikil breyting frá því sem áður var þegar rækjuveiði og rækjuvinnsla var mun stærri þáttur í sjávarútveginum á Íslandi. Það er því virkilega ánægjulegt að Kampi ehf. skuli fara í fjárfestingu sem þessa sem eykur öryggi og sjálfvirkni í vinnslunni til muna.

,,Reksturinn hjá Kampa ehf. hefur gengið vel undanfarna mánuði og góður stígandi hefur verið í vinnslunni. Það var því kjörið tækifæri að fara út í fjárfestingar á búnaði í rækjuverksmiðjunni. Við erum að auka afköst og sjálfvirkni hjá okkur og eru kaup á hágæða karakerfi frá Skaginn 3x liður í því ferli´´, segir Albert Haraldsson rekstrarstjóri Kampa ehf. á Ísafirði.

Freysteinn Nonni Mánason, Brynjar Ingason, Jóhann Bæring Gunnarsson og Albert Haraldsson við undirritun samningsins.

,,Fyrirtæki í sjávarútvegi hérlendis eru ávallt að leita leiða til þess að ná fram meiri afköstum, auka sjálfvirkni og bæta meðhöndlun afurða og þar erum við hjá Skaginn 3X fremst í flokki,“

segir Freysteinn Nonni Mánason svæðissölustjóri hjá Skaginn 3X. Áætlað er að búnaðurinn verði kominn í fulla notkun í febrúar 2019.

Um Skaginn 3X:

Skaginn 3X á traustar rætur í íslenskum sjávarútvegi og hefur haslað sér völl á alþjóðlegum markaði. Fyrirtækið býr að áratuga reynslu í framleiðslu hátæknilausna fyrir matvælaiðnað. Markmið þess er að vera leiðandi í hönnun og þróun á kæli- og frystibúnaði fyrir matvælaframleiðslu.

Meginstarfsstöðvar fyrirtækisins eru á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík. Öll aðstaða og tæknibúnaður stenst ýtrustu kröfur um tækni og býður upp á ströngustu prófanir á öllum kerfum og búnaði. Margt af okkar ágæta starfsfólki hefur verkfræði- og hugbúnaðarmenntun auk áratuga reynslu í þeim greinum sem og af fiskveiðum og sjávarútvegi. Skaginn 3X er hátæknifyrirtæki og meginstyrkur þess liggur í stöðugri frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun. Áhersla er lögð á að bjóða lausnir í hæsta gæðaflokki og ryðja braut nýrrar tækni sem færir viðskiptavinum okkar og umhverfinu verulegan ávinning.

Deila: