Skipin á miðin eftir brælustopp

Deila:

Norsk og íslensk loðnuskip eru nú hvert af öðru að tínast úr höfn eftir brælustopp. Spilli veður ekki fyrir næstu sólarhringa má búast við að kraftur verði settur í loðnuveiðarnar fyrir austan- og suðaustan land. Norsku skipin hafa einungis leyfi til loðnuveiða með nót en íslensku skipin með flottrolli eða nót.

Brælutíðin að undanförnu hefur annars líka gert togurunum erfitt fyir. Eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni hörfuðu Vestmanneyjatogararnir Vestmannaey og Bergur undan veðri við suðusturströndina og lönduðu í Neskaupstað um helgina. Vestmannaey er nú á leið suður fyrir land á ný en Bergur er enn í Neskaupstað.

Drullubræla allan túrinn
Frá því er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar að ísfisktogarinn Gullver NS hafi landað 106 tonnum á Seyðisfirði á mánudag. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri í viðtali á heimasíðunn að segir að drullubræla hafi verið alla veiðiferðina.
„Við vorum að veiðum við Herðablaðið eða ofan við Reyðarfjarðardýpið. Það aflaðist ágætlega en veiðiferðin tók eina þrjá sólarhringa. Eftir hádegi á sunnudag var orðið vitlaust veður og þá var farið í land. Það er búin að vera mikil brælutíð í janúar og það sem af er febrúar. Þetta eru langar og leiðinlegar brælur og þreytandi tíðarfar,“ segir Þórhallur.

Á meðfylgjandi mynd eru systurskipin Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Þau eru nú bæði komin á fulla ferð í loðnuveiði fyrir austan land.

Deila: