Atvinnutekjur í fiskeldi á Vestfjörðum jukust um nær 600%

Deila:

Langmesta aukning atvinnutekna á Vestfjörðum var í fiskeldi, sem margfaldaðist á árunum 2008 til 2015. Atvinnutekjur í greininni jukust um 350 milljónir króna, eða um 591 prósent. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar Atvinnutekjur 2008 til 2015 eftir atvinnugreinum og svæðum.
Heildaratvinnutekjur í fiskeldi á Vestfjörðum nema um hálfum milljarði króna, eða sem svarar fjórðungi atvinnutekna í atvinnugreininni í landinu í heild. Ætla má að útsvarstekjur sveitarfélaganna í landsfjórðungnum hafi því numið nálægt 75 milljónum króna árið 2015. Þetta er hrein viðbót við atvinnutekjurnar á Vestfjörðum og fyrir sveitarfélögin, sem einnig njóta auðvitað einnig annarra tekna svo sem vegna aflagjalda og tekna vegna afleiddra starfa í tengslum við uppbyggingu fiskeldisins.
Uppbyggingin hefur orðið mest og hröðust á sunnanverðum Vestfjörðum. Atvinnutekjur vegna fiskeldisins eru að 80 prósentum utan Ísafjarðarbæjar. En þess er að vænta að þetta muni breytast á næstu árum vegna áforma um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Þar með verða áhrifin á norðanverðum Vestfjörðum svipuð og við erum þegar farin að sjá á sunnanverðum Vestfjörðum.

Deila: