Eimskip lætur smíða tvö gámaskip í Kína

Deila:

Eimskip hefur átt í samningaviðræðum við skipasmíðastöðvar í Kína í tengslum við smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum. Félagið hefur nú undirritað samning við China Shipbuilding Trading Company Limited og Guangzhou Wenchong Shipyard Co. Ltd. Samningsverð hvors skips nemur um 32 milljónum dollara og gert er ráð fyrir að skipin verði afhent á árinu 2019. Samningurinn er með fyrirvara um fjármögnun, en Eimskip vinnur að því að tryggja fjármögnun skipanna. Royal Arctic Line hefur einnig undirritað samning við sömu skipasmíðastöð um smíði á einu sambærilegu skipi.

Skipin munu verða með ísklassa og hönnuð með tilliti til skilyrða „Polar Code“. Heildarlengd þeirra verður 180 metrar, breidd 31 metri og þau verða með TIER III vél sem er sérstaklega útbúin til að draga úr útblæstri köfnunarefnis (NOx) út í andrúmsloftið. Skipin munu auka afkastagetu og áreiðanleika þjónustunnar þar sem þau eru stærri en núverandi skip á markaðssvæðinu og vel búin til siglinga á Norður-Atlantshafi. Þau verða sparneytnari á hverja gámaeiningu samanborið við eldri skip og verða umhverfisvænni vegna innbyggðs olíuhreinsibúnaðar sem lágmarkar brennisteinsútblástur (SOx) út í andrúmsloftið. Stærri og hagkvæmari skip munu leiða til lægri rekstrarkostnaðar á gámaeiningu.

Eimskip og Royal Arctic Line hafa unnið að því að ramma inn fyrirhugað samstarf um samnýtingu á afkastagetu. Félögin hafa nú undirritað samkomulag um samstarf, en það bíður þess að vera kynnt fyrir og staðfest af viðeigandi samkeppnisyfirvöldum ef við á. Frekari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir.

„Það er ánægjulegt að gengið hafi verið frá samningi um smíði nýju skipanna. Þetta er mikilvægt skref í endurnýjun og þróun á skipaflota Eimskips. Við höfum einnig náð samkomulagi við Royal Arctic Line sem byggir á okkar langvarandi tengslum og samstarfi allt frá árinu 1993. Þróun hafnarsvæða í Nuuk, Reykjavík og Þórshöfn munu gefa færi á notkun stærri skipa á markaðssvæði okkar. Við gerum einnig ráð fyrir að samstarfið auki viðskipti á milli þjóðanna á norðurslóðum, sérstaklega þau takmörkuðu viðskipti sem verið hafa á milli Íslands og Grænlands þar sem beinar siglingar og tíðni ferða hefur verið ábótavant,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

„Samkomulagið, sem háð er samþykki viðeigandi yfirvalda, er mikilvægt skref í að tengja Grænland við alþjóðlega markaði. Það skapar tækifæri fyrir útflytjendur, gefur færi á frekari vinnslu afurða á Grænlandi áður en þær eru fluttar beint til áfangastaða um allan heim með hagkvæmari hætti. Einnig felur þetta í sér mikilvæg tækifæri fyrir viðskiptavini til að flytja vörur beint frá nýjum markaðssvæðum í stað þess að þurfa að fara einungis í gegnum Danmörku. Við sjáum nú aukin tækifæri og hagkvæmni til framtíðar sem auðvelda munu viðskipti við Grænland,“ segir Verner Hammeken, forstjóri Royal Arctic Line.

Um Royal Arctic Line

Royal Arctic Line A/S var stofnað árið 1993 og er að fullu í eigu grænlensku landssjórnarinnar. Landsstjórnin hefur veitt Royal Arctic Line A/S sérleyfi til að annast vöruflutninga á sjó til og frá Grænlandi ásamt flutningum á landi. Þetta hefur gert félagið að fjöreggi grænlensks samfélags. Royal Arctic Line annast einnig rekstur 13 hafna á Grænlandi.
Um Eimskip

Eimskip er leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með tengingar við alþjóðlega markaði og sérhæfingu í flutningsmiðlun um allan heim, með þá framtíðarsýn að vera framúrskarandi í flutningalausnum og þjónustu. Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland. Félagið rekur 60 starfsstöðvar í 20 löndum, er með 20 skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.680 starfsmönnum. Um helmingur tekna félagsins kemur frá starfsemi utan Íslands.

Eimskip hefur verið umboðsaðili Royal Arctic Line á Íslandi frá árinu 1993. Samstarfið var aukið á árinu 2016 með því að TVG-Zimsen, dótturfélagi Eimskips, var falið að annast flutningsmiðlun á flugi og akstri fyrir Royal Arctic Line í Evrópu.

 

Deila: