Nýtir tölvusjón og gervigreind í þróun tæknilausna

Deila:

Nýsköpunarfyrirtækið Ration ehf. er gott dæmi um hvernig allra nýjasta tækni á borð við tölvusjón, þjarka og gervigreind er nú þegar að ryðja sér rúms í hátæknibúnaði hér á landi fyrir fiskeldi. Fyrirtækið er dótturfyrirtæki Visk sem sérhæfir sig í tölvusjón og Klaka sem á sér rúmlega 50 ára sögu í framleiðslu á búnaði fyrir iðnað og sjávarútveg hér á landi en með tilkomu nýrra eigenda með sérþekkingu og menntun í róbótatækni og sjálfvirkni fyrir fjórum árum hefur Klaki verið í örri þróun á sjálfvirknilausnum og nýtt til þess tölvusjón, rótbóta, gervigreind og aðrar hátæknilausnir. Í Ration er lögð áhersla á hliðstæða tækniþróun þar sem sérstaklega er horft til fiskeldisins og eru fyrstu tæknilausnirnar nú þegar að líta dagsins ljós. Fyrirtækið hefur fengið styrki úr Matvælasjóði og Tækniþróunarsjóði til að þróa og markaðssetja lausnir sínar.

Hrogn í þúsundavís talin og gæðametin á sekúndu!
Garðar Örn Garðarsson stýrir starfsemi Ration ehf. en einn lykilþáttur í stofnun fyrirtækisins á síðasta ári segir hann hafa verið aðkomu Visk ehf. sem er í eigu Hans Emil Atlasonar, doktors í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands en Hans Emil starfar við hlið Garðars í Ration. „Visk ehf. hefur frá stofnun árið 2020 sérhæft sig í smíði á myndgreiningarkerfum fyrir iðnað og lagareldi en með því að leggja saman krafta okkar sáum við tækifæri til að þróa kerfi fyrir greiningu á hrognum í fiskeldi. Með því að nýta tölvusjónina og gervigreind getum við í þessu kerfi talið þúsundir hrogna á sekúndu, stærðargreint þau og metið gæði þeirra.

Ofan á þetta getum við síðan bætt sjálfvirkum þjarki sem fjarlægir öll hrogn sem ekki uppfylla gæðastaðla. Með öðrum orðum erum við með þessu kerfi að auka verulega gæði fyrir hrognaframleiðandur og um leið er hrognakaupandinn öruggari um að fá nákvæmlega þann fjölda hrogna sem hann óskar eftir og af bestu gæðum,“ útskýrir Garðar Örn. Tölvusjónin er í þessu tilviki lykiltækni en ekki síður gervigreindin sem lærir að meta hvaða þátta í hrognunum þarf að horfa til. Eitt er liturinn á hrognunum, annað er að meta augun í hrognunum og svo segir stærð hrognanna líka ákveðna sögu um gæðin. Allt gerist þetta á ógnarhraða og þarf ekki að fjölyrða um að þetta er dæmi um tæknilausn sem tekur mannshöndinni og sjón langt fram.

Nánar er fjallað um Ration í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: