Þróa spálíkan til að meta gæði fiskimjöls fyrir laxeldisfóður

Deila:

Síðastliðið ár hafa Matís og Háskóli Íslands, í samstarfi við Félag Íslenskra Fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnsluna, Eskju og Ísfélagið unnið að þróun myndog litrófsgreiningarspálíkans til að meta gæði fiskimjöls sem innihaldsefnis í laxeldisfóður. Spálíkanið mun gera fiskimjölsframleiðendum kleift að fá hraðvirka, hagkvæma, nákvæma og einfalda greiningu á gæðum síns fiskimjöls hvað varðar meltanleika og vöxt í laxeldi.

Allir íslenskir fiskimjölsframleiðendur beita nú þegar litrófsgreiningartækni, svokallaðri NIR-tækni (e. near-infrared spectroscopy), til að mæla efnainnihald fiskimjölsins sem þeir framleiða. Hefur þessi tækni margsannað sig hvað varðar áreiðanleika, auk þess sem hún er fljótvirk, ódýr og einföld. En efnasamsetning mjölsins ein og sér gefur ekki fullkomnar upplýsingar um gæði fiskimjölsins þegar það er orðið hluti af fiskeldisfóðri. Þar eru mikilvægustu gæðavísarnir meltanleiki próteinanna og að sjálfsögðu hve miklum vexti fóðrið skilar. Fram að þessu hefur þurft að fara í tímafrekar og kostnaðarsamar fóðurtilraunir á lifandi fiskum (in vivo) til að fá áreiðanlegar upplýsingar um vöxt og meltanleika fiskeldisfóðurs og innihaldsefna í þeim.

Nú eru Matís og Næringarfræðideild Háskóla Íslands hins vegar að vinna að þróun litrófs- og myndgreiningaspálíkans sem spáð geti fyrir um þessa gæðavísa.  Um þetta er fjallað nánar í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: