Veiðar á íslensku síldinni hafnar

Deila:

Veiðar á íslensku síldinni eru nú hafnar og er aflinn orðinn tæp 8.000 tonn. Veiðarnar eru að nokkru leyti markaðar af miklu minni aflaheimildum á þessu fiskveiðiári en því síðasta. Heimildir nú eru aðeins tæp 40.000 tonn eftir 6.000 tonna millifærslu frá síðasta fiskveiðiári. Kvótinn á síðasta ári var 67.000 tonn og aflinn þá varð 61.000 tonn.

Minni aflaheimildir nú byggjast að hluta til á nýrri aflareglu og hins vegar af slakri nýliðun.

„Síldveiðar haustið 2016 takmörkuðust við stórt svæði djúpt vestur af landinu. Líkt og árið áður gengu veiðar erfiðlega framan af þar sem síldin var dreifð yfir stórt svæði í minni torfum en vanalega á þessum árstíma. Heildarafli haustvertíðarinnar varð 54 þús. tonn og mest veiddist í nóvember. Frá júní og fram á haustið veiddust rúm 6000 tonn sem meðafli í veiðum á makríl og norsk-íslenskri síld fyrir suðaustan, sunnan og vestan land. Allur síldarafli á vertíðinni var tekinn í flotvörpu,“ segir meðal annars í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir veiðarnar á þessu fiskveiðiári.

Nú eru tæplega 20 skip búin að landa síld. Mestan afla  er Aðalsteinn Jónsson SU kominn með, 941 tonn. Næsta skip er Venus NS með 875 og þá kemur Vilhelm Þorsteinsson EA með 729 tonn. Mestar heimildir í síldinni eftir millifærslur hefur Jóna Eðvalds SF, 5.343 tonn og næst kemur Vilhelm Þorsteinson með 4.689 tonn.

Á síðasta fiskveiðiári var Vilhelm Þorsteinsson með mestan síldarafla, 7.436 tonn. Næst koma Ásgrímur Halldórsson með 6.137 tonn og síðan Venus NS með 4.662 tonn.

Deila: