Veiðigjald er landsbyggðarskattur

Deila:

„Skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga er eitthvað sem allir verða að standa skil á. Greiðslur geta þó haft mismunandi áhrif á nærsamfélagið, eftir því hvar á landinu þær eru greiddar. Svo dæmi sé tekið þá munar Selfoss kannski ekki sérlega mikið um það, hvort veiðigjald á sjávarútvegsfyrirtæki er hækkað eða lækkað. Annað kann að eiga við byggðir þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru burðarás samfélagsins.“ Svo segir í færslu á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Tökum sem dæmi Bolungarvík. Fram kemur í nýlegri úttekt, sem gerð var fyrir sveitarfélagið, að veiðigjald sjávarútvegsfyrirtækja þar á þessu fiskveiðiári, sem byrjaði 1. september, sé áætlað um 311 milljónir króna. Er þar um að ræða þreföldun frá fyrra ári. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík lýsir áhrifunum með eftirfarandi orðum í samtali við Morgunblaðið á dögunum: „Ég er mjög hugsi yfir því hvaðan þeir pen­ing­ar [hækkun veiðigjalds] eiga að koma. Ekki verða þeir tekn­ir af fram­legð fyr­ir­tækj­anna eins og hún er í dag. Ég get ekki séð annað en hún verði þá tek­in með því að draga sam­an í kostnaði, fækka störf­um, minnka þjón­ustu, hætta allri þróun og hætta að sækja fram. Ég sé ekki annað en að þetta sam­fé­lag sem ég stýri sé að fara að borga fyr­ir þetta dýr­um dóm­um.“

Því er við að bæta að veiðigjald yfirstandandi fiskveiðiárs grundvallast á rekstrarárinu 2015, sem var hagstætt ár í sjávarútvegi. Nú, þegar greiða á gjaldið, horfir allt öðruvísi við og rekstrarskilyrði eru mun verri en árið 2015. Þannig hefur gengi krónunnar styrkst verulega frá þeim tíma og dágóð hækkun hefur orðið á kostnaði, sem til fellur í íslenskum krónum, svo einstakir augljósir áhrifaþættir séu nefndir.

Á myndinni hér að neðan má sjá að 21% af álögðu veiðigjaldi árið 2015 lagðist á sjávarútvegsfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, en 79% hins álagða gjalds lagðist hins vegar á sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni. Það er að segja; fjórir fimmtu gjaldsins eru greiddir af fyrirtækjum á landsbyggðinni. Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að hækkað veiðigjald muni hafa meiri og afdrifaríkari áhrif á landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið.

veidigjald

Jón Páll bæjarstjóri bætir við: „Það er ekki nóg með að þessi pen­ing­ur hverfi út úr bæj­ar­fé­lag­inu held­ur hef­ur maður áhyggj­ur af því að þró­un­in leiði til auk­inn­ar samþjöpp­un­ar sem þýðir bara að þær út­gerðir sem eiga fjár­magn kaupa upp þær út­gerðir sem eru minni og veik­ari, …“ Rétt er að ítreka að ráðamenn hafi þessi sjónarmið í huga, enda getur það varla verið vilji þeirra að þrengja mjög að rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið og hvetja til samþjöppunar.“

 

Deila: