20% hagnaðar í arðgreiðslur

Deila:

Í samræmi við samþykkt aðalfundar Marel hf. árið 2017 verður greiddur út arður til hluthafa vegna reikningsársins 2016 sem nemur 2,14 evru sentum á hlut, og nemur heildararðgreiðsla um 15,3 milljónum evra, sem samsvarar u.þ.b. 20% af hagnaði ársins samkvæmt færslu á heimasíðu Marel.

Arðsréttindadagur (e. record date) verður þann 6. mars 2017. Hluthafar tilgreindir í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags eiga tilkall til arðs.

Arðleysisdagur (e. ex-date), það er sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2016, verður 3. mars 2017, daginn eftir aðalfund.

Félagið vekur sérstaka athygli á því að arðurinn verður greiddur út í krónum (ISK) en þeir hluthafar sem óska hins vegar eftir arðgreiðslu í evrum (EUR) skulu tilkynna félaginu um slíkt með tölvupósti á netfangið dividend@marel.com, eigi síðar en 9. mars 2017. Í tilkynningunni skal hluthafi jafnframt veita upplýsingar um viðeigandi EUR reikning (þ.m.t. IBAN númer, SWIFT kóða og heimilisfang reikningseiganda), svo unnt sé að greiða arðinn án vandkvæða. Gerð er krafa um að EUR reikningur þessi sé á nafni viðkomandi hluthafa.

Við útreikning á fjárhæð arðgreiðslu í krónum verður miðað við miðgengi hins skráða opinbera viðmiðunargengis Seðlabanka Íslands kl. 11:00 á aðalfundardegi 2. mars 2017, sem er 113,47.

Útborgunardagur (e. payment date) arðgreiðslu verður þann 23. mars 2017. Eru hluthafar hvattir til að tengja vörslureikninga sína (VS-reikningar) við bankareikning svo unnt sé að ganga frá greiðslu arðs með rafrænum hætti.

Öllum fyrirspurnum varðandi framangreint og arðgreiðsluna að öðru leyti skal beint til félagsins í gegnum netfangið dividend@marel.com.

 

Deila: