Á annað hundrað samhljóða umsagnir

Deila:

Á annað hundrað samhljóða umsagnir hafa borist í samráðsgátt vegna frumvarps matvælaráðherra til nýrra laga um lagareldi (fiskeldi ofl.). Frestur til að skila umsögnum hefur verið lengdur í tvígang.

Í umsögnunum kennir ýmissa grasa en í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulega hertum skilyrðum sjókvíaeldis. Til stendur að stækka friðunarsvæði, sem ná þá yfir Eyjafjörð og Öxarfjörð.

Í 122 umsögnum sem eru samhljóða segir:

 

Íslensk náttúra og villtir laxastofnar standa nú á krossgötum. Lög um lagareldi munu hafa áhrif á afkomu og framtíð vistkerfa á Íslandi og því er algjörlega nauðsynlegt að náttúran fái að njóta vafans og engir afslættir séu gefnir. Ég krefst þess að stjórnvöld banni laxeldi í opnum sjókvíum. Fjöldamörg alvarleg umhverfisslys hafa nú þegar átt sér stað undir eftirliti íslenska ríkisins, má þar m. a. nefna laxa- og fiskilúsafár, gríðarleg afföll og nú síðasta haust slepping þúsunda frjórra norskættaðra eldislaxa.

Þrátt fyrir allt er þó ekki of seint að koma í veg fyrir að skaðinn verði óafturkræfur. Ég hvet ykkur til þess að innleiða tafarlausa stöðvun á stækkun iðnaðarins og hætta laxeldi í opnum sjókvíum.

Í millitíðinni þarf að grípa til hagnýtra varúðarráðstafana til að forðast frekari skaða. Frumvarp þetta tekur þó ekki þau nauðsynlegu skref sem tryggja tilvist villta laxastofnsins og ósnortna náttúru landsins um ókomna tíð. Allar þær skerðingar á framleiðsluheimildum sem frumvarpið leggur til eru ekki varanlegar, nema fyrir það tiltekna fyrirtæki sem missir heimildina. Af hverju að svipta einn umhverfissóða heimildum, til þess að selja þær öðrum umhverfissóða?

Hér að neðan eru lágmarkskröfur um breytingar á ákveðnum atriðum frumvarpsins.

1. Verndun villtra stofna: Orðalag í markmiðsgrein frumvarpsins er ekki afdráttarlasut og tryggir ekki að náttúran og villti laxinn fái að njóta vafans. Þetta er óásættnalegt

2. Eftirlit með sjókvíaeldi: Það er algjörlega óásættanlegt að treysta eigi áfram á innra eftirlit sjókvíaeldisfyrirtækja. Dæmin sanna að það virkar ekki og kemur niður á náttúrunni. Eftirlit á að vera óháð, sterkt og óvænt.

3. Afföll: Frumvarpið tekur ekki nægilega á afföllum í sjókvíaeldi. Allt yfir 10% afföllum er óásættanlegt og svara þarf háum afföllum í sjókvíaeldi með varanlegri framleiðsluskerðingu iðnaðarins.

4. Strok: Strok í sjókvíaeldi er einfaldlega óásættanlegt. Viðurlög þurfa að vera mun strangari en frumvarpið gerir ráð fyrir og margföldunarstuðlar fyrir strok margfalt hærri en lagt er til í frumvarpinu. Strok á undantekningalaust að valda miklum og varanlegum skerðingum á framleiðsluheimildum iðnaðarins.

5. Áhættumat Erfðablöndunar: Það er óásættanlegt að frumvarpið leggi til að áhættumat erfðablöndunar sé ekki bindandi fyrir ráðherra. Ef það yrði samþykkt þá þýddi það að framtíð íslenskrar náttúru og villtra laxastofna væri orðin pólitísk ákvörðun, sem ekki endilega yrði byggð á vísindum.

6. Ófrjór lax: Eftir reynslu undanfarinna mánaða þá ætti það að vera skilyrðislaus krafa stjórnvalda að einungis sé notast við ófrjóan lax í sjókvíaeldi.

7. Leyfi ótímabundin, framseljanleg og veðsetjanleg: Þetta minnir óþarflega mikið á kvótakerfið og þættina „Verbúðin“. Það er óásættanlegt að veita mengandi fyrirtækjum sem 70% þjóðarinnar er á móti ótímabundinn aðgang að sameign þjóðarinnar og hreinni náttúru landins.

8. Lús: Ekkert er tekið fram í frumvarpinu hver ásættanleg lúsagildi eru. Nýlega kom upp einn versti lúsafaraldur í sögu þessa iðnaðar, og það hér á Íslandi. Það er nauðsynlegt að taka þetta föstum tökum og gefa enga afslætti. Ég skora á stjórnvöld að taka upp NASCO staðlana er varða lús. Ef lús fer yfir þá staðla, ætti það að leiða af sér varanlega skerðingu á framleiðsluheimildum fyrir iðnaðinn.

Þessi listi er ekki tæmandi, en þetta eru lágmarkskröfur sem nauðsynlega þurfa að vera til staðar til þess að koma í veg fyrir þann skaða sem þessi mengandi iðnaður hefur haft, hefur nú og mun halda áfram að bera í för með sér.

Deila: