Vinnslu á norsk-íslenskri síld hjá SVN lokið

Deila:

Lokið var við að landa um 1.100 tonnum af norsk íslenskri síld úr Berki NK í Neskaupstað á miðvikudag og er veiðum á slíkri síld þar með lokið hjá Síldarvinnsluskipunum. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar gekk makríl- og síldarvertíðin vel bæði hvað varðar veiðar og vinnslu.
„Vinnsla á makríl hófst hjá okkur seint í júlímánuði og vinnslu á norsk-íslensku síldinni lauk í gær. Það má segja að þessi vertíð hafi að öllu leyti gengið eins og best verður á kosið. Afköstin í fiskiðjuverinu eru upp undir sjö hundruð tonn af makríl á sólarhring en það tekur lengri tíma að frysta hann en bæði síld og loðnu. Þegar mest var umleikis í sumar voru um 30 manns á vakt í verinu en upp á síðkastið hafa verið um 20 manns á vakt. Nú bíðum við eftir Íslandssíldinni en Beitir hóf veiðar á henni fyrir vestan land í gær og Börkur er á leiðinni á miðin,“ segir Jón Gunnar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

 

Deila: