Kolmunni bræddur á Vopnafirði

Deila:

Vinnsla á kolmunna er hafin hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Byrjað var að bræða kolmunna í verksmiðjunni um hádegisbilið á þriðjudag eftir að Venus NS og Víkingur AK komu til Vopnafjarðar með um 800 tonna afla.

,,Skipin komu inn vegna brælu á miðunum og slæms veðurútlits og voru því með minni afla en ella,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði í samtali á heimasíðu HB Granda.

Að sögn Sveinbjörns er kolmunninn hið besta hráefni, feitur og fallegur fiskur, og hann á von á því miðað við kvótastöðuna að kolmunnaafli muni duga verksmiðjunni vel fram í næsta mánuð.

,,Framhaldið veltur auðvitað mest á því að kolmunninn gefi sig til og á tíðarfarinu. Mér skilst að vertíðin hafi byrjað vel út af Seyðisfirði en síðan hafi aflinn dregist saman. Það má vel vera að fara þurfi dýpra og lengra eftir kolmunnanum en það kemur í ljós á næstu dögum og vikum,“ segir Sveinbjörn en hann reiknar með því að lokið verði við vinnslu á aflanum í nótt. Venus og Víkingur eru á miðunum en bæði skipin fóru frá Vopnafirði á þriðjudag.

Það sem af er ári hefur verksmiðjan á Vopnafirði alls unnið úr tæplega 69 þúsund tonnum af hráefni og hefur starfsemin gengið vel. Verksmiðjan nýtir alfarið umfram rafmagnsorku til framleiðslunnar og hefur framboð raforku verið það tryggt að ekki hefur þurft að grípa til þess að keyra verksmiðjuna með olíu.

 

Deila: