Seachill afhent Hilton Food Group

Deila:

Icelandic Group hefur lokið við sölu á Seachill, dótturfélagi sínu í Bretlandi, og afhent nýjum eiganda. Kaupandi er breska matvælafyrirtækið Hilton Food Group. Salan var tilkynnt þann 18. október síðastliðinn en afhending félagins til nýs eiganda fór fram , þann 7. nóvember 2017.

„Söluferlið á Seachill var auglýst í apríl síðastliðnum. Mikill áhugi var á félaginu þar sem fjölmargir alþjóðlegir aðilar tóku þátt í ferlinu. Umsjón með söluferlinu og ráðgjöf til seljanda var í höndum Oghma Partners og Íslandsbanka. Logos veitti seljanda lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin.

Seachill verður sjálfstæð eining innan Hilton og munu núverandi stjórnendur Seachill halda störfum sínum áfram fyrir félagið. Simon Smith, forstjóri Seachill, mun halda áfram að leiða félagið sem framkvæmdastjóri einingarinnar,“ segir í frétt á heimasíðu Framtakssjóðs Íslands

Seachill er umfangsmikill framleiðandi á kældum og frosnum sjávarafurðum sem og tilbúnum sjávarréttum til stórra smásölukeðja í Bretlandi. Seachill á einnig vörumerkið ‚The Saucy Fish Co.‘ sem hefur verið byggt upp á breska neytandamarkaðinum og í fleiri löndum.

Tekjur Seachill árið 2016 námu um 37 milljörðum króna og starfsmenn eru um 750 talsins. Félagið verður rekið sem sjálfstæð eining hjá Hilton eftir viðskiptin og munu stjórnendur Seachill og aðrir lykilstarfsmenn halda áfram störfum fyrir félagið.

Óverulegt magn af íslenskum fiski er selt í gegnum verksmiðjur Seachill eða einungis um 5% alls af heildarhráefni félagsins.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er eigandi að 100% hlutafjár í Icelandic Group. FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu fimmtán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.

Icelandic Group er eigandi vörumerkjanna „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi. Helstu samstarfsaðilar félagsins eru Solo Seafood og Highliner Foods sem selja hágæða sjávarafurðir undir vörumerkinu Icelandic Seafood. Afurðir seldar undir vörumerkinu Icelandic Seafood lúta ströngum gæðakröfum og gæðaeftirliti sem er grunnurinn að þeirri sterku stöðu sem vörumerkið hefur á mörkuðum.

Solo Seafood, eigandi Ibérica á Spáni, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi en Ibérica selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu.

Kanadíska fyrirtækið Highliner Foods, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða er leyfishafi vörumerkisins og selur frosnar sjávarafurðir inn á hótel og veitingahús.

Hilton er leiðandi framleiðandi á kjötafurðum og er mikilvægur birgi alþjóðlegra smásöluverslana. Vörur frá Hilton eru seldar í stórverslunum 14 landa.

Félagið var stofnað 1994 í Huntingdon í Bretlandi og hefur síðan byggt upp sex úrvals kjötvinnslur í fleiri löndum Evrópu. Hjá félaginu starfa ríflega 2.800 manns.

Hlutabréf í Hilton eru skráð á aðallista Kauphallarinnar í London.

 

Deila: