Ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar tilbúið

Deila:

Nú er hægt að sækja Ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017 á vef félagsins.  Í ráðstefnuheftinu er að finna dagskrá, lýsingu á málstofum og erindum, framúrstefnuhugmyndum og margt fleira.

Ráðstefnan er haldin í Hörpu í næstu viku, dagana 16. til 17. Nóvember. Haldnir verða tugir erinda í nokkrum málstofum og veitt verða framúrstefnuverðlaunin Svifaldan eins og undanfarin ár.

Ráðstefnuheft

Hrefna Karlsdóttir, formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017 ritar eftirfarandi inngang að ráðstefnuritinu:

„Sjávarútvegsráðstefnan er haldin í áttunda sinn í ár. Met var slegið í fyrra þegar yfir 800 manns sóttu ráðstefnuna og það ár var ráðstefnan flutt í Hörpu og er ljóst að sú ákvörðun er komin til að vera.
Að vanda er dagskráin fjölbreytt og málefnin í takt við það sem brennur á mönnum í greininni hverju sinni auk allra þeirra nýjunga og framfara sem íslenskur sjávarútvegur vinnur að. Að vanda koma fyrirlesarar hvaðanæva að og leitast er við að fá erlenda fyrirlesara enda starfar íslenskur sjávarútvegur í alþjóð- legu umhverfi.
Opnunarmálstofan í ár fjallar um hvort hægt sé að Fimmfalda útflutningsverðmæti bláa hagkerfisins. Stórt er spurt og það verður spennandi að sjá hvernig fyrirlesarar sjá fyrir sér markmið og leiðir í þessu sambandi. Eru frekari tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi á Íslandi og hvaða áskoranir stöndum við frammi fyrir í þeim efnum?
Meðal annarra málstofa sem verða eru markaðsmál en þau hafa ávallt skipað mikilvægan sess á Sjávarútvegsráðstefnunni og verður engin breyting á því í ár. Í málstofu um Tækifæri og áskoranir á nýjum mörkuðum verður m.a. fjallað um Kínamarkað og hvaða hlutverk flutningsleiðir hafa í opnum nýrra markaða.
Hugverkaréttur verður til umræðu í tveimur málstofum. Hugverk innan sjávarútvegs og tengdra greina geta legið í vörumerkjum, tæknilegum uppfinningum, framleiðsluaðgerðum o.fl. Hvernig og af hverju verja eigi hugverk verður þar til umfjöllunar.
Ein verðmætasta afurð fiskvinnslu í dag eru ferskir hnakkar og flakabitar en samkeppni á þessum markaði hefur aukist með frosnum uppþíddum fiski. Á málstofunni Framtíð ferskfiskvinnslu verða þessi mál skoðuð af þeim sem best þekkja. Sjálfvirknivæðing í veiðum og vinnslu hefur vaxið undanfarið og upplýsingatækni hefur rutt sér rúms innan sjávarútvegs líkt og í öðrum atvinnugreinum. Nokkrar málstofu taka fyrir málefni sem tengjast þessu.
Fjórða iðnbyltingin verður rædd í málstofu með sama heiti og m.a. velt fyrir sér hvernig hún muni breyta störfum í sjávarútvegi á komandi árum. Mikil þróun hefur orðið í gæðamati enda gæði afurða lykilatriði í markaðssetningu íslenskra sjávarafurða. Rafræn gæðakerfi verða krufin til mergjar af notendum í málstofu um Þróun og framtíðarsýn í gæðamálum.
Í málstofunni Upplýsingatækni í sjávarútvegi verður fjallað um hvernig nýta megi gögn og hugbúnað til að m.a. auka verðmætasköpun, bestun á vinnslu, rekjanleika og markaðssetningu. Pallborðsumræður um Mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í sjávarútvegi eru á dagskrá, þar sem við fáum að kynnast hvernig þessum málum er háttað hjá Norðmönnum.
Lokamálstofan í ár fjallar um Fiskveiðistjórnunarkerfi og veiðigjöld annarra þjóða. Þar munum við fá innsýn í þessi mál hjá Færeyingum og Grænlendingum. Sjávarútvegsráðstefnan er meira en fyrirlestrar og umræður, hún er ekki síður mikilvægur vettvangur fyrir fólk í greininni til að hittast, efla tengsl og mynda ný.“

Ritið má sækja á heimasíðu ráðstefnunnar á slóðinni: http://sjavarutvegsradstefnan.is/wp-content/uploads/2017/11/Sj%C3%A1var%C3%BAtvegsr%C3%A1%C3%B0stefnan-2017-LOW.pdf

 

Deila: