Það má vinna með náttúrunni

Deila:

„Einn ágætur arkitekt sagði eitt sinn við mig að umræðan um náttúruvernd væri á þann veg að ef fugl gerði sér hreiður þá væri náttúran þar á ferð en ef maður byggði sér hús þá væru það umhverfisspjöll. Talsverðar deilur hafa að undanförnu verið um uppbyggingu sjókvíaeldis við strendur Íslands. Það þarf ekki að vera þannig að menn eyði orku í að deila árum saman. Betra er að ræða málin og komast að niðurstöðu sem hentar öllum.“ Svo skrifar Helgi G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Laxar fiskeldi í pistli á fréttasíðunni austurfrett.is Hann segir þar ennfremur:

helgi_g_sigurdsson_laxar_tiny

„Það má vinna með náttúrunni og nýta hana eins og mannfólkið hefur gert í þúsundir ára.
Í áraraðir hafa íslenskir veiðiréttarhafar leitað leiða til að auka fiskgengd í vötnum og ám. Þeir hafa t.d. gert laxastiga við fossa, sleppt seiðum í ár og skapað með þessum aðgerðum aukin verðmæti og lífsgæði fyrir stóran hóp fólks sem hefur þá aukna ánægju af veiðunum.

Laxveiði ár búnar til með góðum árangri

Laxveiðiár hafa verið búnar til með góðum árangri, t.d. Rangárnar að stórum hluta þar sem aðstæður til hrygningar og uppbyggingar á náttúrulegum fiskistofni eru afleitar en með sleppingum á seiðum á hverju ári hefur tekist að byggja upp tvær af bestu laxveiðiám landsins. Aðstæður til veiða þar eru einstakar þar sem veiðistaðir eru góðir og umhverfið fallegt.
Þarna er verið að vinna með náttúrunni og nýta hana á umhverfisvænan hátt.
Þær raddir heyrast að uppbygging sjókvíeldis sé stjórnlaus og að laxeldi í sjókvíum muni hafa neikvæð áhrif á stangveiði. Reyndin er hins vegar önnur.
Íslensk stjórnvöld settu sér stefnu strax um aldamótin þar sem tekin var ákvörðun um að friða stóran hluta strandlengjunnar fyrir laxeldi til að vernda íslenska laxastofna fyrir hugsanlegri erfðablöndun.
Laxeldisfyrirtæki vilja framleiða góða matvöru við einstaklega góðar náttúrulegar aðstæður á Íslandi í hreinum sjó. Með áralöngu starfi við markaðssetningu á fiskafurðum frá Íslandi hefur tekist að skapa góða ímynd og hærra verð hefur fengist fyrir vöruna.

Mikil þróun hefur verið í allri umgjörð fiskeldis á undanförum árum. Góður búnaður til að gæta fyllsta öryggis, rannsóknir og eftirlit hefur verið eflt.
Velferð fisksins er í fyrirrúmi þar sem gefið er gott fóður og aðstæður hafðar þannig að vel fari um fiskinn og honum líði vel. Það er grundvallaratriði við matvælaframleiðslu að dýrunum okkar líði vel.
Lax frá Íslandi er afburðavara sem nú er byrjað að selja í bestu verslunum í Evrópu og Bandaríkjunum og hærra verð hefur fengist fyrir afurðina en áður.
Íslendingar eins og aðrar strandþjóðir eru aðilar að alþjóðasamningum um að auka matvælaframleiðslu í sjó, en þar eru ónýtt tækifæri.

Kolefnisspor í fiskeldi er með því lægsta sem gerist í matvælaframleiðslu.

Nýlega lauk nefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra störfum og gaf út skýrslu með tillögum að stefnumótun í fiskeldi á Íslandi.

Hagsmunaaðilar frá Landssambandi fiskeldisstöðva og Veiðiréttarhafar voru með fulltrúa í nefndinni. Umhverfisráðuneytið og Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytið voru einnig með sína fulltrúa. Markmiðið með störfum nefndarinnar var að ná saman um stefnu hvað varðar uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Megin viðhorf nefndarinnar er að það skuli taka tillit til náttúrusjónamiða og einnig þeirra hagsmuna sem eru fyrir í þeim byggðum sem laxeldi er fyrirhugað m.a. með auðlindagjaldi sem á að stórum hluta að renna til uppbyggingar á innviðum á þeim svæðum sem fiskeldi er stundað.

Niðurstaðan er að við skulum nota þekkingu færustu vísindamanna á þessu sviði.
Nýtum okkur rannsóknir og þekkingu sem er til staðar og eflum það starf. Fiskeldisfyrirtæki greiða nú þegar gjald í umhverfisjóð sjókvíaeldis.
Fyrir uppbyggingu og á meðan henni stendur er mikilvægt að stunda rannsóknir á náttúruskilyrðum og vöktun á þeim. Það þjónar hagsmunum allra.
Byggðir landsins hafa átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum. Fiskveiðar verða ekki auknar en tækifærin í verðmætasköpun á sjávarafurðum eru í fiskeldi.
Með því að standa rétt að málum mun laxeldi skila þjóðarbúinu álíka verðmætum og þorskurinn gerir í dag.
Tækifærið er að vera leiðandi á heimsvísu og koma fram með áætlun um eftirfylgni og hámörkun allra þátta í huga, laxeldi, laxveiði, náttúruvernd og hagsæld.
Hagsmunaaðilar, notum tækifærið og gerum íslenskt laxeldi og laxveiðar einstakar með því að skapa samstöðu um rannsóknir, eftirlit og vöktun á náttúruskilyrðum.
Það mun skila sér til okkar allra í betri náttúrugæðum, verðmætum og hagsæld fyrir land og þjóð.“

Deila: