Samþjöppun kalli á annars konar gjaldtöku
„Ég myndi segja að þetta hafi nú komið mér svolítið á óvart,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í samtali við ruv.is.
„Við höfum séð stöðuga samþjöppun á þessum markaði en við höfum líka séð talsverðan fjölbreytileika. Það er þó þannig að þessi fyrirtæki eru að keppa á stórum markaði úti í heimi og maður skilur alveg að þessi fjölskyldufyrirtæki sem hafa kannski verið í rekstri í fjörutíu, fimmtíu ár séu farin að velta því fyrir sér hvað gerist næst,“ segir innviðaráðherra.
Viðskiptin nema alls þrjátíu og einum milljarði króna. Forsætisráðherra sagðist í hádegisfréttum óttast að samþjöppun í sjávarútvegi væri orðin of mikil eftir þessi kaup, samfélagsleg ábyrgð yrði að ráða för – fremur en hagræðing.
„Ég held að þetta breyti svolítið þessum hugsunarhætti um að við séum með fjölbreytta útgerð ef við verðum fyrst og fremst með mjög fáa mjög stóra aðila sem allir banka í kvótaþakið að þá hlýtur það að kalla á annars konar gjaldtöku,“ segir Sigurður Ingi.