Mótvægisaðgerðir gætu rýmkað fyrir laxeldi

Deila:

„Ef mótvægisaðgerðir draga úr líkum á erfðablöndun eldislaxa og villtra stofna gæti áhættumat Hafrannsóknastofnunar rýmkað fyrir meira laxeldi.“ Þetta segir sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun í samtali á ruv.is. Stofnunin skoðar nú mögulegar mótvægisaðgerðir í laxeldi ásamt fiskeldismönnum.

Skoða áhrif mótvægisaðgerða

Mótvægisaðgerðir í laxeldi eiga að draga úr hættu á erfðablöndun eldislaxa við vilta laxastofna. Þrjú fyrirtæki eru með áform um stórfellt laxeldi í Ísafjarðardjúpi en áhættumat Hafrannsóknastofnunar, vegna mögulegrar erfðablöndunar, leggst gegn laxeldi í Djúpinu. Líkur á erfðablöndun þykja of miklar. Kristján Davíðson, framkvæmdastjóri Landsambands fiskeldisstöðva, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2: „Það er hins vegar vitað að með notkun mótvægisaðgerða sem fela í sér meðal annars ljósastýringu, möskvastærð í nótum, stærð á fiskum við útsetningu og sfrv. Þá væri hægt að minnka þessar líkur.“ Ljósastýring yfir myrkustu vetrarmánuðina á að seinka kynþroska laxanna og með því að tryggja stærð seiða við útsetningu á að koma í veg fyrir að lítil seiði smjúgi út úr kvíunum.

Margir þættir hafa áhrif á niðurstöðu áhættumats

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, segir mótvægisaðgerðirnar byggja á tillögum sem komu fram við gerð áhættumatsins. Verið er að skoða áhrif nokkurra þátta á niðurstöðu reiknilíkans fyrir áhættu á erfðablöndun og hvort hægt sé að tryggja að hlutfall strokulaxa sé minna en fjögur prósent fiska í ám, sem sé viðmiðið. Ragnar segir að ef sú verði raunin geti leyfi fyrir laxeldi verið veitt með skilyrðum um mótvægisaðgerðir. Þó þyrfti að tryggja eftirlit og skoða hvort að mótvægisaðgerðir yrðu staðbundnar kröfur eða ættu við um landið í heild. Ragnar bendir á að þótt mótvægisaðgerðir geti haft áhrif á niðurstöðu áhættumats þá gætu einnig aðrir áhrifaþættir gert það. Matið er síkvikt og tekur til margra þátta sem geti bæði sett laxeldi rýmri og þrengri skorður.

 

Deila: