Dýptarkort unnið með hraði
Áhöfnin á varðskipinu Þór dældi þrjátíu tonnum af ferskvatni í Flatey á Breiðafirði um helgina en vatnsbirgðir í eynni voru orðnar af skornum skammti. Dælingin gekk vonum framar og hefur þetta framtak vakið allnokkra athygli.
„Við þessa sögu má bæta að í tengslum við þetta verkefni óskaði skipherrann á Þór eftir ítarlegri dýpisupplýsingum um Flateyjarhöfn. Í hafnarkortinu eru einungis eingeislamælingar og við bryggjuna sjálfa er byggt á mælingum sem eru sjötíu ára gamlar. Í fyrrasumar var hins vegar sjómælingabáturinn Baldur við mælingar í Breiðafirði og því voru til nýjar dýpisgögn úr fjölgeislamæli. Starfsfólk sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar brást því skjótt við um helgina, vann úr mælingagögnum við Flatey og útbjó bráðabirgðakort. Þetta þýddi að hægt var að sigla varðskipinu nánast upp að bryggju.
Bráðabirgðakortið verður ekki gefið út heldur var það einungis útbúið vegna þessa tiltekna verkefnis. Enn er unnið úr mælingum frá því síðasta sumar en stefnt er að því að nýtt hafnarkort af Flatey komi út á þessu ári,“ segir í frétt á heimasíðu Gæslunnar.