Fundað í sjómannadeilunni í dag

Deila:

„Ég er ekki bjartsýnn á lausn deilunnar. Ef ná á samningum þurfa báðir aðilar að vera tilbúnir að gefa eftir. Ef ekki þá er það bara harkan sex áfram og verkfall áfram, segir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna í samati við Morgunblaðið í morgun.

Samningafundur er í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna hjá Ríkissáttasemjara í dag. Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir frá 14. desember og verkbann sem sett var á vélstjóra hófst á föstudag. Hlé hefur verið á viðræðum síðustu daga og var það öðru fremur til að sjómannaforystan gæti rætt við bakland sitt.

„Núna er bara að sjá hvort viðsemjendur okkar telji líkur á að við getum náð samningum sem sjómenn geti fellt sig við,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún segir verkfallið farið að segja til sín í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og hjá sölufyrirtækjunum eru viðsjár um viðskiptasambönd.

Taki þátt í slysatryggingum

Sjómenn í stéttarfélaginu Framsýn á Húsavík funduðu um helgina. Í tilkynningu frá þeim segir að útgerðarmenn hafni alfarið breytingum á olíuviðmiðinu og bótum vegna afnáms sjómannaafsláttar. Þá hafi óskum sjómanna um breytingar á nýsmíðaálaginu verið vísað út af borðinu. Þetta segjast sjómenn ekki sætta sig við, ekki heldur hugmyndum útgerðarinnar um aukna þátttöku sjómanna í slysatryggingum útgerðarinnar og að breytingar verði gerðar á veikindarétti. Deilan harðni því stöðugt og ætla megi að útgerðin bíði eftir lögum sem banni verkfallið.

Deila: