Ítarlegt yfirlit um kvótann í nýjum Ægi
Ítarlegt yfirlit er yfir úthlutun aflaheimilda á nýhöfnu fiskveiði ári í 8. tölublaði Ægis, sem er nýkomið út. Þar er að finna tölulegar upplýsingar um kvóta hvers og eins skips, fyrirtæki, löndunarhafnir og svo framvegis.
Í blaðinu er jafnframt umfjöllun um nýjasta skip Ramma, Sólberg og nýtt skip Fisk Seafood, Drangey, viðtal við rækjuskipstjórann Viktor Scheving Ingvarsson og viðtal við Snorra Snorrason, skipstjóra á Drangey. Þá fjallar Ólafur S. Ástgeirsson um „Bláu (plast) plánetuna“.
Ritstjóri Ægis. Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis, fylgir blaðinu úr hlaði í formála og segir þar meðal annars:
„Nýtt fiskveiðiár er gengið í garð, líkt og Ægir ber glöggt merki í þessari árlegu útgáfu okkar sem að stórum hluta er helguð tölulegum upplýsingum um úthlutun aflamarks. Það ber helst til tíðinda í úthlutuninni að aukning er í aflamarki lykiltegunda á borð við þorsk, ýsu og ufsa en líkt og áður er á þessum tímapunkti alls óvíst um hvernig staðan verður á loðnustofninum í vetur. Loðnuveiðar skipta að sjálfsögðu miklu fyrir sjávarútveginn sem heild en reynslan síðustu áratugi sýnir að sveiflur geta verið snöggar í þeim veiðiskap.
Við búum hér á landi við kerfi sem takmarkar sókn í sjávarauðlindina. Kjarninn að baki því er að almennt gera allir sér grein fyrir að óheft sókn kemur okkur sjálfum fyrst í koll og getur gengið svo nærri fiskistofnum að langtímaskaði hlytist af. Á þessu er almennur skilningur en það er svo önnur umræða hvort kökunni ætti að skipta með einhverjum öðrum hætti; hvort einn útgerðarflokkur ætti að fá meira á kostnað annars, hvort byggðarlög ættu að eiga ákveðinn rétt umfram aðra og þannig mætti áfram telja. En þegar allt kemur til alls hlýtur það að vera fagnaðarefni að mikilvægustu stofnar í fiskafla landsmanna standa nokkuð sterkir, líkt og aukning aflaheimilda er til vitnis um.“