Beitir og Börkur með síld
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gæmorgun með 1.180 tonn af norsk- íslenskri síld. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra og spurði hvar síldin hefði fengist. „Hún fékkst í færeyskum sjó um 180 mílur austur af Norðfjarðarhorni og 135 mílur norður af Færeyjum. Það var ekkert sérstök veiði á þessu svæði og við vorum tiltölulega heppnir. Hins vegar var meiri veiði töluvert austar. Þetta er ágæt síld til vinnslu sem við erum með,“ segir Sturla.
Þá lagði Börkur NK af stað af síldarmiðunum í gær morgun með 1.500 tonn og má reikna með að hann verði kominn til Neskaupstaðar um hádegisbil í dag. Óli Hans Gestsson stýrimaður segir að veiðiferðin hafi gengið afar vel. „Við fengum aflann í fjórum holum á einum sólarhring. Tvo hol gáfu 450 tonn, eitt 350 og eitt um 250. Aflinn fékkst norðaustast í færeysku lögsögunni og það er eðalsíld sem er þarna á ferðinni,“ segir Óli Hans.