Þorgerður Katrín heimsótti sýningarbás HB Granda í Brussel
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, skoðaði í gær sjávarútvegssýninguna Seafood Expo Global sem hófst í fyrradagí Brussel í Belgíu. Meðal sýningarbása, sem ráðherrann heimsótti, var bás HB Granda þar sem Brynjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, og hans fólk tóku á móti ráðherranum og fylgdarliði.
Seafood Expo Global er stærsta sjávarútvegssýning heims og er HB Grandi meðal sýnenda. Þetta er í 12. sinn sem félagið er með kynningu á afurðum sínum undir eigin nafni en hætt var við þátttöku á sýningunni í fyrra vegna hryðjuverkaárásanna sem þá voru gerðar í Frakklandi og Belgíu.
Að sögn Brynjólfs er sýningarbás félagsins um 90 fermetra stór og sjá rúmlega 20 starfsmenn markaðssviðs HB Granda um kynningu á afurðum og starfsemi félagsins.
,,Fyrsti sýningardagurinn var í gær og heppnaðist einstaklega vel. Sýningarbásinn er virkilega vel heppnaður og allt hefur gengið að óskum. Eins og fyrri skipti, þá er markmiðið að hitta mikilvæga viðskiptavini frá ýmsum mörkuðum og að funda með hinum og þessum sem hafa áhuga á að komast í viðskipti,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson en dagskráin er þétt bókuð hjá honum og hans fólki þessa dagana.
Þess má geta að sýningarbás HB Granda er í sýningarhöll 6 og er hann númer 815. Ekki langt undan er sýningarbásinn sem Íslandsstofa hefur skipulagt og ýmis íslensk fyrirtæki kynna þjónustu sína á.
Myndin: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, og Brynjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, á sýningarbás félagsins á sjávarútvegssýningunni í Brussel. Mynd/HB Grandi.