Færeyingar fá meira fyrir fiskinn

Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á síðustu 10 mánuðum skilaði alls um 7 milljörðum færeyskra króna, sem svarar til 118 milljarða íslenskra króna. Það er vöxtur um 13% miðað við sama tíma í fyrra.

Langmest varð verðmætisaukningin í laxi. Útflutningsverðmæti hans er nú rúmlega 46% heildarinnar og hefur það aukist um 5,2 milljarða miðað við sama tímabil á síðasta ári.

Næsti afurðafokkur er uppsjávarfiskur, makríll síld og kolmunni. Þar er er aukningin milli ára 4,2 milljarðar íslenskra króna og skila þessar tegundir nú ríflega fimmtungi heildarútflutnings sjávarafurða.

Þriðji flokkurinn er þorskur, ýsa og ufsi. Þar jókst útflutningsverðmætið um 1,3 milljarðar króna. Þessar mikilvægu botnfisktegundir skila nú 14% að heildarverðmætinu.

Þó verðmæti útflutningsins hækki um 13%, lækkar magnið um 3%. Það skýrist fyrst og fremst af miklum samdrætti í öðrum tegundum en þeim sem hér eru nefndar. Þar má nefna karfa, grálúðu, skötusel og fleira.

Útflutt magn af þorski, ýsu og ufsa varð að þessu sinni rétt tæp 35.000 tonn, sem er aukning um 8% og er hún mest í ufsanum. Af uppsjávarfiskinum fóru nú utan ríflega 184.000 tonn sem er aukning um 2%. Útflutningur á laxi nam tæpum 53.000 tonna, sem er vöxtur um 4%.

Deila: