Hafna fjölgun veiðidaga á grásleppu
Grásleppunefnd Landssambands smábátaeigenda leggst gegn fjölgun veiðidaga á grásleppu. Sjávarútvegsráðuneytið sendi LS bréf þar sem leitað var eftir afstöðu félagsins er varðaði fjölgun veiðidaga á vertíðinni. Var bréfið sent vegna beiðni fyrirtækisins Vignis G. Jónssonar hf um fjölgun veiðidaga á grásleppuvertíðinni 2017.
Grásleppunefndin telur að best væri að halda sig við þann fjölda daga sem ákveðinn hefði verið.
„Það er skoðun LS að ekki eigi að fjölga dögum á grásleppuvertíðinni 2017 meira en orðið er. Greinargerð: Það er mat LS að tillaga Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla séu ekki skilaboð um að nauðsynlegt sé að veiða það magn. LS bendir á að mælingar Hafrannsóknastofnunar sýndu að minna er af grásleppu nú en í fyrra. Það hafa sjómenn sannreynt og er því full ástæða til að fara varlega á þessari vertíð. Ómögulegt er að segja til um hverju vertíðin skilar. Á vertíðinni 2015 bentu kaupendur á að alltof mikið mundi veiðast og nefndar voru 15 – 16 þúsund tunnur. Niðurstaðan varð hins vegar 12.200 tunnur. Á það skal bent að veiðar eru ekki hafnar í Breiðafirði sem hefur jafnan skilað góðri veiði,“ segir í bréfi LS til ráðuneytisins.