Austfirskir útvegsmenn funduðu um verkfall

Deila:

Í gærkvöldi komu austfirskir útvegsmenn saman á fundi á Eskifirði en á fundinum kynnti samninganefnd útvegsmanna stöðu samningaviðræðna við samtök sjómanna. Nú eru liðnar rúmlega sex vikur frá því að verfall sjómannasamtakanna hófst og tæpar tvær vikur frá því að verkbann á vélstjóra tók gildi. Fundurinn á Eskifirði var fjórði kynningarfundurinn sem haldinn er á landinu.

„Á fundinum var farið ítarlega yfir kröfur bæði sjómannasamtakanna og útvegsmanna og gerð grein fyrir umfjöllun um þær, en sjómannasamtökin hafa í tvígang á undanförnum mánuðum fellt kjarasamninga sem gerðir höfðu verið. Skýrt kom fram að samningar við sjómenn eru flóknir og staða útgerða og útgerðaflokka afar misjöfn til að koma til móts við kröfur þeirra. Þá er ljóst að gengisþróunin að undanförnu hefur haft neikvæð áhrif á hag útgerða og sjómanna og litar sú þróun mjög kjaraviðræðurnar. Í janúarmánuði hefur gengisvísitalan til dæmis hækkað um tæp 4,5%.

Boðað hefur verið til samningafundar nk. föstudag og skiptir miklu máli hvað kemur út úr þeim fundi. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að ekki standi til að setja lög á kjaradeiluna og vísa henni til gerðadóms en spurningin er hve lengi íslenskt efnahagslíf getur þolað það ástand sem nú ríkir. Hafa verður í huga að það er ekki einungis fiskiskipaflotinn sem hefur stöðvast heldur finna öll fyrirtæki sem þjóna sjávarútvegnum fyrir verkfallinu með skýrum hætti svo ekki sé minnst á fiskvinnslufólk um allt land,“ segir í frétt Síldarvinnslunnar frá fundinum.
á Myndinni er hluti fundarmanna á fundinum á Eskifirði í gærkvöldi. Ljósm: Smári Geirsson

 

 

Deila: