Gullver fylltur af reyk

Deila:

Varðskipið Þór er nýkomið úr sautján daga eftirlitsferð um hafsvæðið norður og austur af landinu. Seyðisfjörður var einn af viðkomustöðum skipsins í þessari ferð. Á meðan dvölinni þar stóð notaði áhöfn Þórs tækifærið og efndi til eldvarnaræfingar um borð í togaranum Gullver NS-12. Lagt var upp með að sprenging hefði orðið í afturskipi með miklu reykjarkófi, einn maður væri týndur og skipið aflvana.

Til að líkja eftir sem raunverulegustum aðstæðum var afturskipið fyllt af reyk með reykvél sem Þór hefur yfir að ráða. Þá varð að hífa allan búnað um borð með handafli fyrst gert var ráð fyrir því í æfingunni að skipið væri aflvana. Þetta gerði allt miklu erfiðara en ef notast væri við krana skipsins.

Byrjað var á því að yfirfara teikningar af skipinu til þess að reykkafarar gætu áttað sig á aðstæðum um borð eins og alltaf er gert. Svo voru send þrjú reykköfunarteymi inn í skipið, þó aðeins eitt í einu en hinir biðu áttekta á meðan. Tókst þeim að finna „týnda manninn“ og koma honum út.

Það er því skemmst frá því að segja að æfingin heppnaðist prýðilega. Áhöfn og útgerð Gullvers eru færðar bestu þakkir fyrir afnotin af skipinu. Að sögn Halldórs B. Nellett, skipherra á Þór, eru slíkar æfingar mjög mikilvægar fyrir reykkafara Landhelgisgæslunnar. Aðstæður um borð í skipum sem eldur logar í úti á rúmsjó geta orðið vægast sagt erfiðar og því verður þýðing markvissrar þjálfunar aldrei ofmetin.

Gullver var ekki eina skipið á Seyðisfirði sem Landhelgisgæslan heimsótti. Yfirstýrimaður Þórs og 2. stýrimaður fóru ásamt fjórum reykköfurum í færeysku ferjuna Norrænu þar sem brunavarnarkerfi, neyðaráætlanir og fleira var skoðað. Þá var farið með yfirstýrimanni Norrænu um allt skipið og það skoðað í hólf og gólf. Síðar um daginn var svo haldin verkleg æfing samkvæmt neyðaráætluninni „Skipið yfirgefið“.

Deila: