Nýtt rannsóknaskip smíðað í Færeyjum

Deila:

Færeyska sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið að ganga til samninga við færeysku skipasmiðjuna MEST um smíði á nýju hafrannsóknaskipi. Leitað var eftir tilboðum frá fimm skipasmiðjum og bárust tilboð frá þremur þeirra áður en frestur til þess rann út.

Eftir að farið hafði verið yfir tilboðin kom í ljós að tilboð þeirrar sem lægt bauð, SIMEK í Noregi, uppfyllti ekki allar kröfur, sem gerðar voru til smíðinnar. Yrðu þau uppfyllt myndi það þýða meiri kostnað en tilboðið gerði ráð fyrir og því stæði tilboðið ekki lengur óbreytt. Smíðanefndin hefur því mælt með því að gengið verðir til samninga við þá smiðju sem átti næstlægsta tilboðið, sem er skipasmiðjan MEST.

Samningar við MEST eru háðir því að lögþingið hækki framlag sitt til smíðinnar úr þeim 215 milljónum færeyskar króna, eða 3,6 milljörðum íslenskra, sem áður hafði verið samþykkt, því tilboðið frá MEST hljóðar upp á 4,3 milljarða íslenskra króna. Málið hefur verið lagt fram á ríkisstjórnarfundi og hefur ríkisstjórnin lýst yfir stuðningi við að leggja málið fram á þinginu.

Sjávarútvegsráðherrann, Högni Hoydal, lýsir yfir ánægju sinni með að færeyskar skipasmiðjur skuli geta keppt við skipamiðjur í nágrannalöndunum. Hann er einnig ánægður með að loksins verði byggt nýtt rannsóknaskip sem geti leyst Magnus Heimason af hólmi eftir dygga þjónustu.

Nýja skipið verður minna en hafrannsóknaskip eru oftast, en búið tækjum með svipuðum hætti og rannsóknaskipin sem notuð eru í nágrannalöndum Færeyja. Markmiðið hefur allan tímann verið að nýja skipið verði ekki dýrara í rekstri en Magnus Heinason hefur verið. Fjöldi í áhöfn nýja skipsins verður sá sami og þess gamla og með sama siglingarhraða notar það minni olíu en Magnus Heinason, þrátt fyrir að vélin sé aflmeiri.

Deila: