Snurvoðin kom upp á hvolfi

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er Grindvíkingurinn Sigvaldi Hólmgrímsson. Hann er útgerðarstjóri hjá Maroni ehf. og stendur í ströngu ásamt sínu fólki í upphafi netavertíðar. Fyrirtækið gerir út þrjá netabáta og verkar aflann í salt. Sigvaldi hefur gaman af söng og langar til að rúnta um Evrópu á húsbíl.

Nafn?

Sigvaldi Eiríkur Hólmgrímsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur í Grindavík og bý þar.

Fjölskylduhagir?

Er giftur Svanfríð Dögg Línadóttir og eigum við þrjár dætur.

Hvar starfar þú núna?

Útgerðarstjóri hjá Maroni ehf.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Það var snemma. Ætli ég hafi ekki byrjað að 13 eða 14 ára að beita og keypti mér fyrstu skellinöðruna fyrir peninginn.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Ætli það sé ekki góð veiði. Fátt sem toppar það að vera úti á sjó og fiska vel.

En það erfiðasta?

Erfiðast er líklega að þurfa að segja mönnum upp.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Þegar ég kastaði snurvoð á Vetrarbrautinni við Snæfellsnesið á fallaskiptunum. Hún kom upp á hvolfi. Engin smávegis fallaskipti þar.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er Guðfinnur Sigurvinsson.

Hver eru áhugamál þín?

Tónlist, að syngja og spila á gítar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Kjötsúpa, án efa.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ætli það væri ekki eitthvert til Evrópu að skoða sig um. Vera á húsbíl að rúnta um Evrópu.

 

Deila: