Sumarfrí á Seyðisfirði

Deila:

Frystihúsið á Seyðisfirði er komið í sumarstopp, en það hófst sl. föstudag.  Af þessu tilefni var slegið upp grillveislu í góða veðrinu á bryggjunni. Einhverjir starfsmenn munu sinna viðhaldsverkefnum innanhúss á meðan sumarfríð stendur yfir.

Framleiðsla í frystihúsinu hófst ekki fyrr en 22. febrúar vegna verkfalls sjómanna í byrjun árs.

Að sögn Ómars Bogasonar framleiðslustjóra í samtali við heimasíðu SVN hefur mest verið unnið af þorski og ufsa á árinu.  Samdráttur hefur verið í ufsavinnslu vegna erfiðra markaðsaðstæðna fyrir ufsaafurðir.  Móttekið hráefni á fyrstu 6 mánuðum ársins eru 1.350 tonn en á sama tíma fyrir ári var móttekið hráefni 1.900 tonn.  Ástæðan fyrir lægri framleiðslutölum það sem af er ári eru tilkomnar vegna sjómannaverkfalls í janúar og febrúar.

Stöðug vinnsla hefur verið frá því að verkfalli lauk fram að sumarstoppi og hefur vinnsla gengið vel.  Gengisþróun og markaðsaðstæður hafa verið óhagstæðar og hefur það haft  áhrif á verðmæti framleiðslunnar, á sama tíma hafa flestir kostnaðarliðir verið að hækka. Uppistaðan af hráefninu kemur frá skipum Síldarvinnslunnar hf.

Reiknað er með að framleiðsla hefjist að nýju eftir verslunarmannahelgi.

 

Deila: