Heildarútttekt verði gerð á björgunarbúnaði
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur beint því til Samgöngustofu að þegar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um sjóslys sem varð út af Aðalvík að morgni 7. júlí 2015. þegar dragnótabátnum Jóni Hákoni BA 60 hvolfdi þegar hann var á veiðum og báturinn sökk skömmu síðar. Einn maður fórst en þrír björguðust í nærstaddan bát.
Tveir gúmmíbjörgunarbátar voru í sjálfvirkum sleppibúnaði á þakisttýrishúss Jóns Hákons en eftir að bátnum hvolfdi skilaði hvorugur bátanna sér upp á yfirborðið.
Þann 22. júlí 2015 var farið með neðansjávarmyndavél niður að flaki Jóns Hákons þar sem hann lá á um 80 metra dýpi. Í ljós kom að minni björgunarbáturinn hafði losnað úr stól sínum og lá óopnaður skammt frá flakinu en fangalína lá úr hylkinu og í flakið. Stærri björgunarbáturinn sat óhreyfður í sleppigálga á þaki stýrishússins. Þegar Jón Hákon var tekinn upp í júní 2016 var tekið upp var þessi gúmmíbjörgunarbátur ekki á flakinu og hefur ekki fundist.
Eðli sjósleppiloka, sem gúmmíbjörgunarbátar skipsins voru búnir, er það að þegar hann er kominn á a.m.k. 4-6 m dýpi á hann að sleppa festingum bátanna. Þegar bátnum hvolfdi og hann flaut á hvolfi hafa sjósleppilokarnir verið á um 3,6 m dýpi. Af þessum sökum komu gúmmíbjörgunarbátarnir ekki upp á yfirborðið meðan skipverjar voru á kili skipsins.
Nefndin telur að eftir að báturinn tók að sökkva hafi sleppiloki minni gúmmíbjörgunarbátsins virkað, festingar losnað en hann haldist undir bátnum og ekki komist frá honum fyrr en báturinn snérist við á niðurleið. Þá hafi gúmmíbjörgunarbáturinn verið kominn á það mikið dýpi að uppdrift gúmmíbátahylkisins hafi ekki verið nægjanlega mikil til að öll fangalínan, sem ræsir uppblástur gúmmíbjörgunarbátsins, næðist að dragast út.
Stærri gúmmíbjörgunarbáturinn var í sjálfvirkum losunar- og sjósetningarbúnaði en búnaðurinn virkaði ekki. Nefndin skoðaði búnaðinn sérstaklega og telur að skakkt átak á milli lykkjunnar og kólfsins í sleppilokanum hafi komið í veg fyrir að búnaðurinn virkaði og losað kólfinn. Ljóst er, bæði af rannsókn Rannsóknarnefndarinnar á flakinu og reynslu skoðunarmanna losunar- og sjósleppibúnaðar, að það skiptir miklu máli að átakið sé alveg beint upp og skekkja valdi þvingun sem haldi kólfinum föstum. Nefndin telur það með öllu óásættanlegt að við endurnýjun á jafn mikilvægum öryggisbúnaði og sjósleppiloki er aðeins skipt um hluta hans eins og var í þessu tilfelli þegar ekki var skipt um kólfinn. Nefndin átelur harðlega að ekki sé fylgt eftir kröfum um virkniprófun losunar- og sjósetningabúnaðar á fimm ára fresti eins og kveðið er á um í reglugerð.
Í tillögu í öryggisátt vill RNSA að það verði skoðað sérstaklega hvort núverandi búnaður sé að skila björgunarförum á þann hátt sem til er ætlast. Nefndin telur nauðsynlegt að búnaðurinn sé þannig gerður að gúmmíbjörgunarbátar losni frá skipum ef þeim hvolfir, óháð stærð þeirra. Tillögum nefndarinnar hefur þegar verið komið til Samgöngustofu.
Mynd og texti af bb.is