Krefjandi og gefjandi starf

Deila:

Þetta er virkilega skemmtileg vinna, alltaf mikið að gera og margt sem þarf að huga að. Það er krefjandi en líka gefandi,“ segir Þórdís Hafrún Ólafsdóttir, fyrrverandi sjómaður sem starfað hefur sem verkstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík undanfarin ár. Þar er bæði unninn ferskur fiskur og í salt og starfa 60-70 manns við landvinnsluna. Þorbjörn gerir út fjögur skip; Hrafn Sveinbjarnarson GK, Tómas Þorvaldson GK, Sturlu GK og Valdimar GK. Þá er í smíðum nýr togari á Spáni sem fyrirtækið tekur í notkun á næsta ári. Þórdís hefur bróðurpart starfsævi sinnar unnið við sjávarútveg og kann því einkar vel.

Þórdís, sem var í 17 ár til sjós, þegar allt er talið, kom í land árið 2017 og hefur starfað í landvinnslu Þorbjarnar síðan, í allt 23 ár hjá fyrirtækinu. „Það segir sína sögu. Þetta er gott fyrirtæki sem hugsar vel um starfsfólkið sitt, mér hefur liðið mjög vel öll árin og vil hvergi annars staðar vera,“ segir Þórdís sem ekur úr heimabæ sínum Hafnarfirði til vinnu í Grindavík á hverjum virkum degi og finnst það ekki mikið mál. Hún segir það hafa tekið sig talsverðan tíma að ná nýrri rútínu í landi, að vakna á morgnana og vinna yfir daginn en á sjónum skiptust ævinlega á átta tíma vinnu- og frívaktir. „Ég var smá stund að ná nýjum takti en það kom.“

Þórdís segir starf verkstjóra krefjandi en fjölbreytt og að mörgu þurfi að hyggja. „Þetta er annasamt en það sem stendur upp úr er að starfið er skemmtilegt og vinnustaðurinn góður.“ Hún segir að konum standi fjölmargir möguleikar til boða þegar kemur að góðum og spennandi
störfum innan sjávarútvegs. „Ég mæli með því að konur sæki sér menntun af einhverju tagi sem þeim hentar best og þá eru margar leiðir færar til að fá góð störf innan sjávarútvegsins,“ segir Þórdís.

Nánar er rætt við Þórdísi í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Á myndinni er Þórdís ásamt Bjarka Guðmundssyni yfirverkstjóra.

Deila: