Hvað eru smábátasjómenn að hugsa?

Deila:

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða hefur göngu sína á ný í dag, eftir sumarfrí. Fyrst til að ríða á vaðið þennan veturinn er dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Í erindi sínu mun Catherine fjalla um rannsóknir sínar meðal íslenskra smábátasjómanna, m.a. viðhorf þeirra til og reynsla af fiskveiðastjórnun.

Catherine Chambers

Sjálfbærar fiskveiðar byggja á því að jafnvægi sé á milli félagslegra, hagrænna og umhverfislegra markmiða. Stjórnmálahagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Elinor Ostrom hélt því fram að eiginlegar áherslur fiskveiðastjórnunarkerfa væru á fólk en ekki fisk. Í fyrirlestrinum mun Catherine fjalla um rannsókn sína á sjávarbyggðum og fiskveiðistjórnunarkerfum á Íslandi þar sem komið er inn á hvað einkenni smábátasjómenn, reynslu þeirra af fiskveiðistjórnun og og skoðanir þeirra þar um.

Catherine tók við starfi fagstjóra Haf- og strandsvæðastjórnunarnámsins í janúar á þessu ári. Hún er þverfaglegur vísindamaður á sviði haffræði með víðtæka reynslu bæði frá Alaska og Íslandi. Meðal þess sem hún hefur unnið að eru staðbundin matvælakerfi, fiskveiðistjórnun, málefni Norðurslóða og haftengd ferðaþjónusta. Hún lauk doktorsprófi í sjávarútvegsfræði við Alaska háskólann í Fairbanks og meistarnámi í dýrafræði frá Southern Illionois háskólanum. Hún hefur verið búsett á Íslandi frá 2008 og unnið við Háskólann á Hólum og Þekkingarsetrið á Blönduósi. Hún er einnig vísindavinur við stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólasetursins og er að vanda öllum opið. Það sendur frá kl. 12.10-13.00. Catherine mun flytja fyrirlestur sinn á ensku.

 

Deila: