Viðey sjósett
Ísfisktogarinn Viðey RE var sjósettur í Tyrklandi í síðustu viku. Skipið er það þriðja í röð raðsmíði á ísfisktogurum fyrir HB Granda hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbul en tveir hinir fyrri, Engey RE og Akurey AK, hafa verið afhentir og eru komnir til landsins.
Viðstaddir sjósetninguna í Tyrklandi, að hálfu HB Granda, voru Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri, Jónas Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Loftur Bjarni Gíslason, útgerðarstjóri frystiskipa, og Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE sem verður skipstjóri á Viðey. Auk þeirra voru Rannveig Rist og Anna Sverrisdóttir, sem sæti eiga í stjórn félagsins, viðstaddar og sá Rannveig um að klippa á borðann við sjósetningu skipsins.
Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir heimkomu Viðeyjar í lok ársins.