Hann Mundi er eftirminnilegur

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni kom með nýtt skip til landsins í vikunni. Slíkt gerist ekki á hverjum degi, en skipið er Áskell ÞH 48 og maðurinn er Sigurður Daníel Halldórsson, stýrimaður og afleysingarskipstjóri. Hann byrjaði 17 ára á togara frá Akranesi.

Nafn:

Sigurður Daníel Halldórsson.

Hvaðan ertu?

Er frá Akranesi en hef búið í Grindavík í rúm 22 ár.

Fjölskylduhagir?

Er giftur Herdísi Gunnlaugsdóttir og eigum við 4 börn, Lilju Rún, Jón Fannar, Láru og Heiðdísi og 1 barnabarn hana Ylvu Mareni.

Hvar starfar þú núna?

Stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Áskel ÞH 48.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Kringum 1991 þá 17 ára gamall á togara frá Akranesi Höfðavík AK 200.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er mest gaman þegar vel fiskast og veðrið er gott.

En það erfiðasta?

Brælurnar eru alltaf erfiðar og fjarveran frá fjölskyldunni.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það var mjög sérstakt þegar ég fór með togara frá Akranesi og plantaði honum í miðjum Berufirði þar sem hann endaði sem fóðurstöð fyrir laxeldi.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Hann Mundi (Ingimundur Barðason) vinur minn kemur strax upp í hugann, flottur verkmaður og dásamleg persóna. Höfum brallað mikið saman.

Hver eru áhugamál þín?

Fótbolti, körfubolti, golf, laxveiði og samvera með fjölskyldunni.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Úrbeinað lambalæri klikkar seint.

Hvert færir þú í draumfríið?

Með stórfjölskyldunni í sól og hita.

Á myndinni er Sigurður ásamt Láru dóttur sinn á þjóðhátíð í Eyjum.

Deila: